Staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðina

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tveimur karlmönnum vegna atviks sem átti sér stað í Fellahverfi í Breiðholti fyrr í þessum mánuði. Mennirnir höfðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 9. september á grundvelli almannahagsmuna í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málinu.

„Varnaraðili hefur viðurkennt að af hleypt af einu skoti sem óumdeilt er að hafnaði í bifreið þar sem fyrir var fólk. Að því gættu er fallist á það með héraðsdómi að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar varðandi annan manninn.

Hliðstætt kemur fram varðandi hinn manninn. Þar segir að gögn málsins bendi til þess að hann hafi skotið öðru þeirra skota sem hleypt var af og að nægilega sé fram komið að hann sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Hinn kærði úrskurður sé því staðfestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert