Svona verða dularfullu blettirnir til

Eins konar sogskálameðferð eða svokallað „cupping“ hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga vegna hringlaga bletta á bökum nokkurra keppenda á Ólympíuleikunum. Mbl.is hitti sérfræðing í meðferðinni hér á landi, sem framkvæmdi hana á blaðamanni.

Á að auka blóðflæði

Meðferðin felst í því að eldur er borinn inn í litla bolla til að lofttæma þá og svo er þeim komið fyrir á líkama fólks, þá einna helst baki. Sog myndast og tog verður á húðinni og því myndast blettirnir. Á þetta að auka blóðflæði og vinna gegn streitu, vöðva­bólgu og fleiri kvill­um.

Meðferðin er hins vegar umdeild og segja sumir hana með öllu gagnslausa. Dagmar J. Eiríksdóttir á heilsumiðstöðinni Heilsuhvoli hefur hins vegar iðkað meðferðina lengi samhliða nálastungumeðferðum.

Phelps, Paltrow og Aniston notast við meðferðina 

Dagmar nam nálastungur í Bretlandi, við The International College of Oriental Medicine, og nálastungumeðferð á börnum við London School of Acupuncture. Hún segist notast töluvert mikið við „cupping“ sem hún segir að hafi hjálpað mörgum.

Meðal þeirra sem sést hafa með blettina er bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps, en stjörn­ur á borð við Gwyneth Paltrow og Jenni­fer Anist­on gangast einnig reglu­lega und­ir meðferðina.

Aðferðin vakti fyrst at­hygli á ÓL í Pek­ing árið 2008 er einn kín­versk­ur sundmaður var útataður í blett­un­um og fjöl­miðlar fóru að for­vitn­ast um skýr­ing­una. Cupping-meðferðin hefur hins vegar verið hluti af hefðbundnum kínverskum lækningum (traditional Chinese medicine, TCM) síðan á forntímum.

Marblettir á bakinu í viku

Blettirnir eru í raun marblettir eftir sogskálarnar og eru þeir frekar viðkvæmir viðkomu eftir meðferðina. Meðferðin er sársaukalaus, en blaðamaður fann þó aðeins fyrir soginu. Blettirnir geta sést á húðinni í um viku eftir meðferðina.

Dagmar setti olíu á húðina áður en meðferðin byrjaði, því hún hjálpar til við að þétta bollann upp að húðinni. Þannig er einnig auðveldara að renna bollunum á bakinu. Bollarnir voru aðeins á í um fimm mínútur en eftir það voru þeir teknir af. 

Undirrituð fann ekki augljósan mun til að byrja með, en hver veit nema hún verði komin á fleygiferð í Vesturbæjarlauginni seinnipartinn. 

Frétt mbl.is: Hvaða blett­ir eru á bök­um ÓL-kepp­enda?

Frétt mbl.is: Blaðamaður VG prófaði sogskálarnar

Frétt mbl.is: Stjörnurnar vilja sogglös á bakið

Sjá nán­ar: Hvað er „cupping“?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert