Fjögurra hæða kaffihús í Garðskagavita

Framtíðin. Gestir horfa yfir svæðið og þau hús sem munu …
Framtíðin. Gestir horfa yfir svæðið og þau hús sem munu hýsa sýningar, söfn og veitingastaði. Þeir sem nota þjónustu kaffihússins geta farið upp í vitann, en annars þurfa gestir að borga. Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir

Jóhann Ísberg og Sigurður Þorsteinsson gerðu á vordögum samning við Sveitarfélagið Garð varðandi uppbyggingu á Garðskaga. Svæðið er eitt hið allra vinsælasta á landinu fyrir fuglaskoðun, sjósund og útivist af ýmsum toga. Fáttítt er að svæði sem þessi bjóði upp á salernisaðstöðu, en sú er raunin við Garðskaga og því engan sóðaskap að finna þar. Fyrirhugað er að byggja upp frekari salernisaðstöðu við nýtt veitingahús, sýningarsali og Byggðasafn.

Það sem hefur verið tekið í notkun nú er kaffihús í gamla vitanum, þar sem veggir halda vel utan um gesti. Innanmál veggjanna er einungis 3,35 metrar og stigi er við alla veggi sem tekur sitt pláss. Kaffihúsið er á fjórum hæðum og á þremur þeirra er einungis rými fyrir eitt borð og fjóra stóla við hvert þeirra. Þess má geta að eldhúsið er ekki nema 5,5 fermetrar. Þeir sem ekki treysta sér eða komast ekki í bratta stigana sem liggja alveg upp í ljóshús geta setið úti við á góðviðrisdögum.

Mikil vinna hefur farið í endurbætur á vitanum sem var í mikilli niðurníðslu en er nú mikil prýði. Undirbúningi er lokið fyrir uppsetningu þriggja sýninga í nýja vita, veitingahús fer í gang á næstu vikum og framkvæmdir eru að hefjast við sýningarrými fyrir sögusýningu og norðurljósasýningu. En hvernig hófst þetta ævintýri?

„Þetta hófst eiginlega fyrir rúmlega 10 árum þegar ég þróaði, ásamt tveimur öðrum, tækni við að kvikmynda norðurljósin alveg eins og þau eru, sem ekki hafði verið hægt fram að því. Upp úr því varð til markaðsverkefnið „Seljum norðurljósin“ þar sem einblínt var á Evrópu en margir hristu hausinn yfir og sögðu að það væri ekki hægt að selja eitthvað sem ekki sést. Í dag eru norðurljósin helsta söluvaran í íslenskri ferðaþjónustu. Svo þegar bæjarstjórnin og sveitarstjóri hér fóru að huga að því hvað ætti að gera við þetta svæði hér, sem m.a. er mikið sótt í til að skoða norðurljós, þá æxluðust málin þannig að við tókum að okkur að gera stefnumótun fyrir sveitarfélagið,“ segir Jóhann.

Sögur úr Garði viðbót við kaffisopann

Tvö ár eru síðan Jóhann og Sigurður byrjuðu á stefnumótuninni og þá komu fram hugmyndir um hvernig þeir vildu nýta húsin, svæðið og norðurljósin við Garðskaga. Rætt var við nokkra aðila um aðkomu að rekstrinum því ekki þótti skynsamlegt að bjóða reksturinn út heldur vildu menn frekar einblína á að þeir sem tækju verkið að sér hefðu þekkingu á verkefninu. Fór á endanum svo að þeir félagar tóku verkefnið upp á sína arma, enda fullir af hugmyndum um möguleika svæðisins. Samningar þess efnis voru undirritaðir fyrr á árinu og þá hófust framkvæmdir. Framkvæmdum við kaffihús í gamla vita er lokið og það er komið í notkun og hefur fengið frábærar viðtökur. Bæði heimamenn og gestir eru ánægðir með framtakið.

„Þegar fólk kemur hingað og sest svo niður og fær sér kaffi þá segjum við því oft sögur héðan úr Garði. Fólki finnst þetta mjög gaman og þetta gerir ferðalagið skemmtilegra. Ég lít þannig á að þessi viðbót í ferðaþjónustu eigi eftir að styrkja allt svæðið, ekki bara Garð. Það er mín skoðun að við eigum að vinna saman að uppbyggingu í ferðaþjónustu, að það sé samstarf í samkeppninni, enda vísa ég gestum oft á annan rekstur í bæjarfélögunum hér í kring,“ segir Sigurður.

Þær sýningar sem opnaðar verða í nýja vita á næstu vikum eru Norðurslóðasýning RAX, ljósmyndarans Ragnars Axelssonar, hvalasýning með teikningum Jóns Baldurs Hlíðberg og vitasýning með ljósmyndum og frásögum af vitum Suðurnesja og þeim helstu á landsbyggðinni. Önnur hús sem verða og eru nýtt nú þegar eru vitavarðarhúsið, sem enn um sinn er bara vinnusvæði, fjósið og hlaðan, sem hýsa Byggðasafnið í Garði, en í enda hlöðunnar verður norðurljósahvelfing.

„Í stóra sal safnahússins verður sett upp safn hafsins, þar sem lögð verður áhersla á að segja þá sögu sem var hér, hvernig lífsbaráttan var, árabátarnir sem voru að farast hér, einnig vinnan og vinnslan, þannig að fólk sem kemur hingað skilji þennan þátt í sögunni. Þegar bátarnir voru vélvæddir jukust líkurnar á því að menn lifðu róðurinn af og kæmust í land og það er í raun okkar iðnbylting. Í þessu sambandi er hægt að tengja við vélasafn Guðna Ingimundarsonar í Byggðasafinu,“ segir Sigurður.

Norðurljós á himni eða í kvikmynd í hvelfingu

Til viðbótar við norðurljósahvelfinguna verður norðurljósasafn og segir Jóhann verða bása sem fólk verði leitt í gegnum. „Í annarri hlið aðalsalarins verður saga norðurljósanna rakin, þ.e. hvernig þau verða til, sólin, sólvindarnir, litir norðurljósanna og hvernig þetta allt gerist og svo hvolf þar sem hægt verður að horfa á flottar kvikmyndir af æðislegum norðurljósum. Vonandi úti líka. Þetta verður mjög skemmtilegt, ekki síst á sumrið þegar engin eru norðurljósin,“ segir Jóhann. Sigurður bætir því við að séu engin norðurljós að vetri geti fólk byrjað í norðurljósahvelfingunni, en það síðan látið vita um leið og norðurljós birtast á himni og fengið þannig meira út úr heimsókninni.

Búið er að stækka veitingaaðstöðuna frá því sem áður var, hún verður nú á allri efri hæðinni en á stórum hluta neðri hæðarinnar, sem skapaðist við breytingar á húsinu, er hugmyndin að hafa móttöku og minjagripaverslun. Styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að byggja ný salerni, svo þeim verður fjölgað og aðgengi verður að salernum utan frá. Að auki verður salernishúsið, sem hefur þjónað tjaldsvæði og gestum, lagfært. Þá stendur til að opið verði á öllu svæðinu allt árið, þó að kanna þurfi hvort það borgi sig að hafa kaffihúsið opið á veturna á í gamla vita. „Við þurfum að láta rekstur þess ráðast af eftirspurn. Við sjáum jafnvel fyrir okkur að leigja vitann út til minni hópa ef eftirspurn verður eftir slíku,“ segir Jóhann.

Í lok samtalsins má heyra að Jóhann og Sigurður búa yfir margvíslegum hugmyndum um annan rekstur svæðisins, sem bæði tengist göngustígum sem fyrir eru, hlaðna steingarðinum sem sveitarfélagið dregur nafn sitt af, bílastæðum og svæðisskipulaginu eins og það er í dag.

Inngangur. Áfast við gamla vita er hús sem var nýtt …
Inngangur. Áfast við gamla vita er hús sem var nýtt sem varðhús fyrir vitavörðinn. Um tíma bjó þar 5 manna fjölskylda en nú er húsnæðið inngangurinn í vitann og stærsta rými kaffihússins.
Notalegt. Þröngt mega sáttir sitja – Notaleg stund í kaffihúsinu.
Notalegt. Þröngt mega sáttir sitja – Notaleg stund í kaffihúsinu.
Eldhúsið. Öllu er haganlega fyrir komið.
Eldhúsið. Öllu er haganlega fyrir komið.
Restraraðilar Garðskaga. Jóhann Ísberg og Sigurður Þorsteinsson í ljóshúsinu á …
Restraraðilar Garðskaga. Jóhann Ísberg og Sigurður Þorsteinsson í ljóshúsinu á toppi vitans með Þórðarflös í baksýn.
Fagurt. Flösin kaffihús, The Old Lighthouse Cafe, er í fögru …
Fagurt. Flösin kaffihús, The Old Lighthouse Cafe, er í fögru umhverfi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert