Áfram útsett fyrir öfgakenndum sveiflum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að þrátt fyrir hert regluverk verðum við áfram í opnu og frjálsu markaðshagkerfi útsett fyrir öfgakenndum sveiflum sem geti valdið okkur vandræðum. Það sama eigi við um önnur ríki sem búi við opið og frjálst hagkerfi.

Þessi valkostur hafi, þrátt fyrir alla gallanna, reynst okkur mun betur en hinn valkosturinn, að loka og handstýra hagkerfinu. 

„Hann hefur reynst miklu skaðlegri fyrir lífskjör til lengri tíma. Við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir þær miklu sveiflur sem við höfum gengið í gegnum erum við mjög ört að rétta úr kútnum,“ sagði Bjarni í umræðum á þingi í dag.

Rætt var um frumvarp hans um losun fjármagnshafta, en Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði Bjarna sérstaklega út í lífið eftir höftin og hvort það væri yfir höfuð mögulegt að afnema höftin með öllu. Sagðist Helgi Hrafn meðal annars hafa áhyggjur af því að Íslendingar gætu ekki notið frelsisins eins og þeir vildu.

Hann sæi ekki hvernig við gætum verið í haftalausu umhverfi með krónuna.

Tæki og tól í vopnabúrinu

Bjarni sagði mikilvægt að fyrir hendi væru tæki og tól í vopnabúri stjórnvalda sem þau gætu notað til þess að greina áhættu í fjármálakerfinu. Stjórnvöld hefðu á síðustu árum sett stífari reglur og takmarkað til að mynda þá áhættu sem fjármálafyrirtæki gætu tekist á herðar. Eiginfjárkröfur hefðu verið auknar og auk þess hefði verið sett bindiskylda á skammtímafjármagn sem kæmi hingað til lands.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórnvöld hefðu gert fyrirtækjum á fjármálamarkaði erfiðara fyrir með að auka útlán sín ef aðstæður í hagkerfinu væru þannig að stjórnvöld teldu það óheppilegt.

„Því miður verður þetta alltaf gríðarlega krefjandi verkefni,“ sagði Bjarni. En ekki bara með íslensku krónuna. 

Gengisfelling á ekki að vera auðveld flóttaleið

„Horfum til dæmis til þeirra sem hafa ákveðið að starfa með opið, frjálst markaðshagkerfi og sameiginlegan gjaldmiðil með stóru myntsvæði. Hvernig fór fyrir þeim þegar þeir misstu stjórn á lántökum og eyðslu?

Hvernig gekk að vinda ofan af því í Grikklandi þegar menn höfðu farið fram úr sér í einkaneyslu og skuldsetningu, bæði hið opinbera með óábyrgum stjórnmálum og einkageirinn með botnlausum lántökum og skuldsetningu sem engin innistæða var fyrir?“ spurði Bjarni.

Þá hafi verið „aldeilis hrikalegt að hafa gefið frá sér möguleikann á því að deila byrðunum jafnt með því að fella gengi gjaldmiðilsins,“ nefndi hann.

Hann bætti þó við að það ætti ekki að vera einhver auðveld flóttaleið fyrir stjórnmálamenn að fella gengið.

„Mín niðurstaða er einfaldlega sú að það er best að við séum með okkar eigin gjaldmiðil. En við þurfum áfram að byggja undir stöðugleika og sameiginlegan skilning á milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins um aðgerðir sem hjálpa til við að viðhalda þeim stöðugleika,“ sagði fjármálaráðherra að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina