Álagning á skiptibókamarkaði 50%

Álagning skiptibókamarkaðanna er um og yfir 50% samkvæmt verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í þremur verslunum á höfuðborgarsvæðinu 16. ágúst. Útsöluverð notaðra bóka var oftast hæst hjá Heimkaup.is og oftast lægst hjá A4. Skoðaðir voru 18 algengir titlar af kennslubókum fyrir framhaldsskóla.

Töluverður verðmunur er á milli skiptibókamarkaðanna. A4 var oftast með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru, eða á 11 titlum af 18. Heimkaup.is var oftast með hæsta útsöluverðið, eða á 11 titlum af 18. Sem dæmi um verðmun var bókin „Bókfærsla 1“ ódýrust á 2.199 kr. hjá Pennanum-Eymundsson, hjá A4 kostaði hún 2.499 kr. en hæst var verðið hjá Heimkaup.is 2.890 kr., sem gerir 31% verðmun á hæsta og lægsta verði, segir í frétt á vef ASÍ.

Álagningin er mismikil hjá skiptibókamörkuðunum en í flestum tilvikum er hún um og yfir 50%. Minnsta álagningin er hjá Pennanum–Eymundsson um 40–50%, svo hjá Heimkaup.is um 50–60% en mesta álagningin er hjá A4 um 60–70%. Sem dæmi um álagningu hjá Pennanum-Eymundsson má nefna bókina „Almenn jarðfræði“ en fyrir hana fær seljandi 1.799 kr. en bókin er svo seld út á 2.999 kr. sem er 67% álagning eða 1.200 kr. Sem dæmi um álagningu hjá A4 má nefna bókina „Þyrnar og rósir“ sem er keypt inn á 1.554 kr. en seld út á 2.399 kr. sem er 54% munur eða 845 kr. Heimkaup.is kaupir bókina „Dansk er mange ting“ á 1.716 kr. og selur bókina svo aftur á 2.490 kr. sem er 45% munur eða 774 kr.

Þegar útsöluverð á nýjum og notuðum bókum er borið saman kemur í ljós að það er mun hagstæðara að kaupa notaða bók en nýja. Verðmunurinn í verslununum er misjafn en mestur verðmunur er hjá Heimkaup.is eða um 60–70%, svo hjá A4 um 40–50%. Minnstur verðmunur á notaðri og nýrri bók er hjá Pennanum-Eymundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert