Krefja Minjastofnun um 600 milljónir

Minjastofnun ríkisins hefur borist krafa upp á 600 milljónir króna vegna gamla hafnargarðsins við Austurbakka í miðbæ Reykjavíkur. Hafnargarðurinn var færður í fyrra að frumkvæði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra.

Ákvað Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra að skyndifriða garðinn, sem er frá árinu 1928.

Fréttatíminn greinir frá þessu í dag. Málflutningsstofa Reykjavíkur sendi Minjastofnun kröfuna fyrir hönd Reykjavík Development. Er krafan tvíþætt: Annars vegar er farið fram á að greiddur verði útlagður kostnaður eigenda lóðar á reitnum við Tollhúsið við að færa hafnargarðinn og setja í geymslu í Örfirisey.

Hins vegar er farið fram á viðræður um kostnað við að koma steinunum fyrir aftur til sýnis fyrir almenning, eins og ráðgert var.

Bjarki Þór Sveinsson, lögmaður hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur, segir í fréttinni að kostnaður við það geti hlaupið á milljörðum króna.

„Það var alltaf ljóst að reikningurinn fyrir þetta myndi lenda í vasa skattgreiðenda,“ segir Bjarki Þór. 

Frétt mbl.is: Verða varðveittir í bílakjallara

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert