Fjarlægðin dregur ekkert úr vináttunni

Dóróthea og Alda í garðinum hjá Öldu, þær verða fjórtán …
Dóróthea og Alda í garðinum hjá Öldu, þær verða fjórtán ára í haust. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þær eru afar samrýndar æskuvinkonurnar Alda og Dóróthea sem búa hvor í sínum landshlutanum, önnur í höfuðborginni en hin norður í Þingeyjarsýslu. Þær dvelja ævinlega saman sumarlangt við Mývatn og þá er margt brallað.

Þær fæddust í Kína en voru ættleiddar af íslenskum foreldrum og þeim líður ekkert öðruvísi en öðrum Íslendingum, þó að útlit þeirra sé ólíkt útliti flestra sem hér búa.

Við hittumst fyrst þegar við vorum tveggja ára og smullum strax saman, eða svo segja foreldrar okkar, við munum ekkert eftir þessum fyrsta fundi. Fyrstu minningar okkar saman tengjast því að vera úti að leika eða inni að horfa á Söngvaborg, en þá dönsuðum við í sundbolum og sungum með fyrir framan sjónvarpið,“ segja þær Alda Áslaug Unnardóttir og Dóróthea Örnólfsdóttir sem hafa verið bestu vinkonur allar götur síðan þær hittust fyrst. Alda býr í Reykjavík en Dóróthea í Mývatnssveit, en þær láta fjarlægðina ekki stía sér í sundur. „Við tölum mikið saman á Skype og Facetime.“

Þær komu í heiminn á sama ári, 2002, og ekki eru nema fjórir dagar á milli afmælisdaga þeirra.

„Þegar mamma ættleiddi mig frá Kína vissi hún ekkert af þessari kínversku stelpu sem bjó fyrir norðan, en örlögin leiddu okkur saman þegar mamma kynntist pabba mínum, en hann starfar á Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn á sumrin og þaðan eru ekki nema fjörutíu skref yfir í húsið þar sem Dóróthea á heima.“

Ef önnur er leið þá kemur hin henni fljótt í stuð

Eftir að foreldrar Öldu, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Árni Einarsson, tóku saman hefur hún dvalið með þeim á hverju sumri við Mývatn, og fyrir vikið eiga þær vinkonurnar alltaf saman nokkra mánuði á ári. Þær hafa líka heimsótt skóla hvor annarrar yfir veturinn, Alda hefur fengið að koma í tíma með Dórótheu í hennar bekk í Reykjahlíðarskóla og Dóróthea hefur sömuleiðis nokkrum sinnum fengið að koma í bekkinn hjá Öldu í Norðlingaskóla.

Þær vinkonurnar hafa undanfarin sumur starfað saman við barnapössun fyrir norðan, en í sumar unnu þær ekki saman því Alda fékk vinnu í Reykhúsinu en Dóróthea var að passa. „En við unnum saman einu sinni í viku við að þrífa kirkjuna hjá pabba,“ segir Dóróthea sem er dóttir prestshjónanna á Skútustöðum, Örnólfs Ólafssonar og Arnfríðar Önnu Jónsdóttur. Og að sjálfsögðu vörðu þær saman öllum sínum frítíma.

„Yfirleitt þegar við erum saman þá erum við rosalega glaðar, og ef önnur er eitthvað leið eða í fýlu þá er hin fljót að koma henni í stuð. Við rífumst ekki þótt við séum kannski ekki alltaf sammála, og við erum þó nokkuð ólíkar í okkur, Dóróthea fylgist til dæmis mjög vel með tískunni en ekki ég,“ segir Alda og Dóróthea bætir við að Alda sé meira fyrir dýr en hún og auk þess sé Alda í tónlistarnámi en ekki hún.

Bjuggu til rapptexta sjö ára

„Við finnum okkur alltaf eitthvað að gera þegar við erum saman, við göngum á fjöll, hoppum á trampólíni, spilum tölvuleiki, förum í jarðböðin, búum til myndbönd, leiki og semjum texta við allskonar lög. Við vorum ekki nema sjö ára þegar við bjuggum til rapptexta. Ég samdi texta við Júróvisjónlag og flutti fyrir mömmu á afmælisdeginum hennar,“ segir Alda sem eitt sinn bjó til heilan Kiljuþátt þar sem mamma hennar þurfti að leika hina ýmsu rithöfunda en sjálf sá hún um tónlistaratriðin.

„Þegar við vorum yngri vorum við alltaf í bangsaleik með bangsana okkar, Bláma og Fjólu. Við skrifuðumst mikið á yfir veturinn og létum bangsana líka skrifa lítil bréf sín á milli. Á sumrin gistum við oft hvor hjá annarri, en þá er lítið sofið,“ segja þær og bæta við að þær séu með einkahúmor sín á milli sem enginn annar skilur.

„Okkur finnst rosalega gaman að baka, við gerum tilraunir og breytum uppskriftum. Við höfum haldið tvö stór matarboð fyrir foreldra okkar á þessu ári þar sem við tvær sáum alfarið um að elda alla réttina. Í annað skiptið buðum við upp á mexíkóska kjúklingasúpu og brauðbollur, en í hitt skiptið var það lambafille með brúnuðum kartöflum. Og við gerðum að sjálfsögðu eftirrétti.“

Fólk ávarpar okkur á ensku

Alda og Dóróthea koma frá ólíkum svæðum í Kína, Dóróthea kemur frá Lai Bin í suðri sem er nálægt Víetnam, en Alda er frá Chongchinq í Sechuan-héraði í suðvestri. Þær hafa báðar farið einu sinni til Kína, Alda þegar hún var sex ára en Dóróthea þegar hún var fjögurra ára, en þá sóttu foreldrar hennar yngri systur hennar, Ólöfu. Þær segjast ekki hafa neina sérstaka löngun til að fara til Kína eða kynnast því sem kínverskt er, enda séu þær íslenskar. „Þegar við vorum yngri var það sport að vera ættleidd, það var kúl að vera frá öðru landi,“ segir Dóróthea, en Alda segir að í byrjun grunnskóla hafi henni verið strítt vegna þess að hún var öðruvísi, en allt slíkt er löngu hætt. Dóróthea segist alveg hafa sloppið við stríðni í skólanum, kannski af því allir í sveitinni þekktu hana.

„Við höfum alveg lent í því að fólk fer að tala við okkur ensku af því það heldur að við séum útlendar, en þá svörum við bara á íslensku og þá leysist sá misskilningur. Það getur líka verið gott að byrja á því að bjóða góðan daginn á íslensku í búðum, svo afgreiðslufólkið fari ekki að tala við okkur á ensku.“

„Hver er alvöru mamma þín?“

Þær segjast vissulega fá allskonar spurningar í tengslum við það að þær eru ættleiddar og koma frá Kína.

„Ég finn ekkert fyrir því að ég sé ættleidd og ég er ekkert að hugsa sérstaklega um það. Mér líður ekkert öðruvísi en öðrum Íslendingum, en auðvitað er útlit mitt ólíkt útliti flestra sem búa hér,“ segir Alda.

Þær segjast auðvitað velta fyrir sér þeirri staðreynd að þær eigi foreldra í Kína sem þær hafi aldrei séð eða hitt.

„Það er mjög skrýtin tilfinning sem fylgir því að hugsa til þess að ég eigi aðra foreldra sem eru blóðforeldrar mínir,“ segir Alda. Þeim finnst báðum óþægilegt að útskýra fyrir öðrum krökkum þegar þau spyrja kannski: Hver er alvöru mamma þín?

„Alvöru mömmur okkar eru auðvitað mömmurnar sem ólu okkar upp og við þekkjum engar aðrar mömmur, en það er ekki auðvelt fyrir suma að skilja það.“

Framtíðin brosir við þessum góðu æskuvinkonum sem auðvitað eiga margar aðrar góðar vinkonur að auki. Og þó þær séu að fara í níunda bekk í haust þá eru þær strax farnar að pæla í framhaldsskóla. Báðar langar þær að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð en Dóróthea segist þó kannski verða fyrir norðan fyrsta veturinn og þá geti hún valið um Menntaskólann á Akureyri, Verkmenntaskólann í sama bæ eða Framhaldsskólann á Laugum.

Þær eru iðulega kátar og lífsglaðar vinkonurnar góðu.
Þær eru iðulega kátar og lífsglaðar vinkonurnar góðu.
Á sama túni fyrir norðan með nokkurra ára millibili, þriggja …
Á sama túni fyrir norðan með nokkurra ára millibili, þriggja ára hér og tólf ára við hliðina.
Þær hafa átt margar góðar stundir saman frá því þær …
Þær hafa átt margar góðar stundir saman frá því þær voru litlar skottur.
Hér reiða þær fram eftirréttinn Súkkulaðidraum í matarboði sem þær …
Hér reiða þær fram eftirréttinn Súkkulaðidraum í matarboði sem þær buðu foreldrum sínum til.
Sprelligosar. Þeim finnst gaman að klæða sig upp á.
Sprelligosar. Þeim finnst gaman að klæða sig upp á.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »