Pokémon-skemmdarverk í Lystigarðinum

Hliðið sem brotnaði.
Hliðið sem brotnaði. Ljósmynd/Aðsend

Lystigarðurinn á Akureyri hefur orðið fyrir töluverðum skemmdum síðan tölvuleikurinn Pokémon Go sló í gegn.

Að sögn Guðrúnar Kristínar Björgvinsdóttur, garðyrkjufræðings í Lystigarðinum, hefur tvívegis verið óskað eftir því að garðurinn verði ekki lengur stoppistöð fyrir áhugasama Pokémon-spilara en án árangurs.

Brotinn plaststóll í Lystigarðinum á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Hlið brotið og plaststólar skemmdir

„Það er búið að brjóta hlið, það er búið að skemma steinvörðu og skemma gróður. Það eru sígarettustubbar og rusl úti um allt á morgnana þegar við komum hérna,“ segir Guðrún Kristín og bætir við að um 50 plaststólar við kaffihúsið sem er í Lystigarðinum hafi einnig verið skemmdir. „Þetta er úti um allan garð. Þegar við erum að slá  fer þetta í vélarnar hjá okkur ef við sjáum þetta ekki. Þetta skemmir og spýtist út um allt.“

Hún kennir Pokémon-leiknum hiklaust um og segir skemmdarverkin hafa aukist mjög mikið eftir að hann varð vinsæll.

Plaststóll uppi í tréi. Ljósmynd/Aðsend

„Ömurlegt að sjá þetta“

Að sögn Guðrúnar sitja Pokémon-spilarar í garðinum við iðju sína áður en honum er lokað klukkan 22 á kvöldin. Margir spilarar láta lokunina ekki aftra sér. „Þeir klifra hérna yfir grindverkið og stíga í blómapottana. Það er auðvelt að komast inn og ef þeir væru ekki að skemma þá væri maður ekkert að væla í þeim. Það er ömurlegt að sjá þetta.“

Starfsmaður garðsins hefur tvívegis sent tölvupóst á erlendu Pokémon-síðuna og óskað eftir því að Lystigarðurinn verði tekinn út sem stoppistöð. Þrátt fyrir að hafa sent þeim myndir af skemmdarverkunum hefur ekkert verið brugðist við.

Frétt mbl.is: Pokémon-æði á Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina