Líklega margþættar skýringar á veikindum

Veikindin hafi gert vart við sig í mörgum vélum Icelandair …
Veikindin hafi gert vart við sig í mörgum vélum Icelandair og við margs konar kringumstæður. mbl.is/ Júlíus Sigurjónsson

Um sex til átta mánuðir eru frá því að bera tók á auknum veikindum hjá flugliðum Icelandair. Axel F. Sigurðsson, trúnaðarlæknir Icelandair, segir veikindin sennilega eiga sér margþættar skýringar. „Það er erfitt að setja þetta undir einn hatt, en fólk hefur m.a. verið að lýsa höfuðverk, svima, doða í kringum varir, doða í útlimum, ógleði og almennri vanlíðan,“ segir hann og bætir við að einkennin séu líka mismunandi í hverju tilfelli fyrir sig.

Veikindin hafi gert vart við sig í mörgum vélum og við margs konar kringumstæður. Hafa beri þó í huga að þær hafi orðið í litlu broti af öllum flugum. „Þetta er samt aukning og eitthvað sem við höfum áhyggjur af og teljum fulla ástæðu til að skoða.“

Tekin í læknisskoðun strax eftir flug

Axel segir einnig misjafnt hve lengi fólk sé að jafna sig á veikindunum. „Í sumum tilfellum er viðkomandi búin(n) að jafna sig þegar vélin er komin á áfangastað, en í öðrum tilfellum hafa einkennin varað lengur.“ Dæmi séu um að fólk hafi verið tekið í læknisskoðun og blóðprufu strax eftir flug hafi einkennin enn verið til staðar. „Í engu tilfellanna hefur fundist skýring á sjúkdómseinkennunum,“ segir hann og bætir við að slíkt þurfi þó ekki að vera óeðlilegt, ekki finnist alltaf skýring á veikindum við læknisskoðun.

„Það er afar líklegt að við séum að fást við veikindi sem eiga sér fleiri en eina skýringu,“ segir Axel og kveðst telja að í fjölmörgum þessara tilvika sé sennilega bara um um venjuleg veikindi af einhverju tagi að ræða.  

„Það þarf samt að ganga úr skugga um hvort það sé eitthvað í vinnuumhverfinu sem veldur þessu.“ Flugvirkjar og aðrir starfsmenn Icelandair séu því búnir að vera að fara yfir tæknileg atriði, loftgæði og fleira, en engin einhlít skýring hafi enn fundist.  „Það er þekkt í flugheiminum að svona hlutir séu að koma upp hjá flugfélögum,“ segir hann og kveður skýringar stundum hafa fundist í þeim tilfellum og stundum ekki.

Hjá Icelandair verður haldið áfram að skoða málið. „Nú eru komnir mælar um borð sem virka þannig að ef einhver upplifir sjúkdómseinkenni er hægt að taka loftsýni úr vélinni til að vita hvernig loftsamsetningin í vélinni var á þeim tímapunkti.“

mbl.is