Gerir athugasemdir við tollverndina

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat hjá við atkvæðagreiðslu um búvörusamningana í 2. umræðu. Hún segir gagnrýni sína bæði beinast að beinum ríkisstyrkjum að fjárhæð 13,5 milljarða króna árlega næstu tíu árin en þó einkum að gríðarlegri tollvernd. Hún segir að ekki sé tekið á tollverndinni svo nokkru nemi í samningunum sem til stendur að afgreiða fyrir þinglok.

„Breytingar atvinnuveganefndar eru að vísu vissulega skref í einhverja átt, en það er engin grundvallarbreyting,“ segir Sigríður og vísar þar til tollfrjáls innflutnings á svonefndum sérostum sem eykst úr 20 tonnum í 230 tonn nái tillögurnar fram að ganga.

Sigríður bendir á að á móti þessu hænuskrefi í átt til frekari fríverslunar standi til að gengistryggja magnkvóta á tilteknum landbúnaðarafurðum aftur til ársins 1995. Hún segir að upphaflega hafi staðið til að verðtryggja magnkvótana við vísitölu neysluverðs en það hafi sætt mikilli gagnrýni og því ákveðið að draga úr tillögunni og gengistrygging með SDR myntkörfunni lögð til í staðinn.

Búvörusamningarnir voru til umræðu á þinginu.
Búvörusamningarnir voru til umræðu á þinginu. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta hefði valdið yfir hundrað prósenta hækkun,“ segir Sigríður um vísitölutryggingu. „Atvinnuveganefnd tók tillit til þeirra sjónarmiða, frumvarpið gerði ráð fyrir að gert yrði ráð fyrir vísitölu neysluverðs.“

Hún segir þó að eftir standi hækkun á magntollum. „En af hverju voru þeir þá ekki gengistryggðir á sínum tíma?“ segir Sigríður. „Það var af því að skilningur manna á sínum tíma var sá að þessir magntollar ættu að fjara út. Það orkar því tvímælis að mínu mati að stjórnmálamenn snúi aftur að þeirri ákvörðun áratugum seinna.“

Sigríður hefur óskað eftir því að áhrifin af tollfrjálsum innflutningi á sérostum annars vegar og afturvirkri hækkun á magnkvótum hins vegar verði tekin til skoðunar hjá atvinnuveganefnd fyrir þriðju umræðu. Hún segir enn svigrúm vera til breytinga á samningunum. Atvinnuveganefnd geti ekki breytt samningunum sem undirritaðir voru með fyrirvara um samþykki bænda og þingsins, en geti hins vegar breytt forsendum að baki samningunum sem lagðar verða fyrir þingið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert