Andlát: Guðrún Jónsdóttir arkitekt

Guðrún Jónsdóttir
Guðrún Jónsdóttir

Guðrún Ólafía Jónsdóttir arkitekt lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. september sl., 81 árs að aldri. Guðrún fæddist 20. mars 1935 á Blönduósi, dóttir hjónanna Huldu Á. Stefánsdóttur (1897-1989) skólastjóra og Jóns. S. Pálmasonar (1886-1976) bónda á Þingeyrum í A-Hún.

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og námi í arkitektúr frá Konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn 1963. Eftir útskrift vann hún á teiknistofu prófessors Viggo Möller Jensen og Tyge Arnfred til 1966. Eftir að hafa flust búferlum til Íslands, rak Guðrún teiknistofuna Höfða ásamt Stefáni Jónssyni og Knúti Jeppesen til 1979. Hún var forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur, síðar Borgarskipulags Reykjavíkur 1980-1984. Frá 1984 rak hún TGJ Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur allt til dauðadags.

Guðrún sat í stjórn Arkitektafélags Íslands 1969-1973 og var formaður 1970-1972, hún var formaður Torfusamtakanna 1972-1979, sat í ráðgjafanefnd um menningarmál á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar 1972-1984, í framkvæmdastjórn Listahátíðar 1974-1976, í Skipulagsstjórn ríkisins 1985-1990, í Náttúruverndarráði 1993-1996 og í faghópi vegna Rammaáætlunar 1999-2003. Hún var varaborgarfulltrúi Nýs vettvangs 1990-1994 og Reykjavíkurlista 1994-2002, sat í skipulagsnefnd Reykjavíkur 1990-1998, var formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur 1994-2002, formaður byggingarnefndar Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og formaður stjórnar Búmanna hsf. frá 1998-2015. Þá var hún virkur félagi í Zonta-klúbbi Reykjavíkur frá 1971 til dauðadags og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Zonta-regluna bæði hér heima og á erlendri grundu. Guðrún var kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands 2015.

Guðrún var þrígift, fyrst Ómari Árnasyni tryggingastærðfræðingi, þá Knúti Jeppesen arkitekt og síðast Páli Líndal, fv. borgarlögmanni og ráðuneytisstjóra, sem lést 1992. Guðrún átti fjögur börn, Huldu Sigríði, Önnu Sölku, Stefán Jón og Pál Jakob, og fríðan hóp barnabarna og barnabarnabarna.

Útför Guðrúnar fer fram í Dómkirkjunni 16. september nk. og hefst kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert