Rétta fólkið kosið?

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Styrmir Kari

„Við eigum mikið undir því að fólk treysti stjórnmálaflokkunum og þeim aðferðum sem þeir nota við val á frambjóðendum. Og ég verð að segja að mér er brugðið yfir fréttaflutningi af því gerræði og því viðringarleysi fyrir réttum leikreglum lýðræðisins sem hefur birst í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi,“ sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann fór hörðum orðum um Pírata.

Vísaði hann til þess að framboðslisti Pírata í kjördæminu hefði verið ógiltur á þeim forsendum að oddviti listans hefði orðið uppvís að hegðun sem ekki teldist ásættanleg. Hann hefði fengið 20-30 manns til þess að ganga í flokkinn til þess að kjósa sig. Býsna margir glæpamenn væru í íslenskum stjórnmálum ef þetta væri höfuðsynd. Spurði hann hvort þingmenn Pírata hefðu aldrei fengið neinn til þess að ganga í flokkinn. 

Talsmaður Pírata, sem sjálfur hefði verið í framboði í Norðvesturkjördæmi og lotið í lægra haldi, hefði síðan bitið höfuðið af skömminni með því segja að 18 af þessum 20-30 hefðu einungis kosið oddvitann. Þessi ummæli væru hrikaleg. Annaðhvort hefðu Píratar brotið gegn grundvallarreglum lýðræðisins um frjálsar kosningar og gegn skýrum ákvæðum laga um persónuvernd með því að hafa atkvæði fólks rekjanleg eða að talsmaðurinn væri að bera út róg um einstaka frambjóðendur í lýðræðislegum kosningum.

Dugir til að dæma Pírata úr leik

„Hvor skýringin sem er ætti að duga til þess að dæma þessa stjórnmálahreyfingu úr leik,“ sagði Árni Páll. Spurði hann enn hver væri glæpurinn. Benti hann á að fjöldi manns hafi gengið til liðs við Pírata fyrir prófkjör þeirra í Reykjavík og rúm 7% þátttakenda hefðu aðeins kosið einn frambjóðanda sem hefði verið algengasta samsetningin á kjörseðlinum. „Af hverju er ekki búið að ógilda það prófkjör? Er það af því að þar var rétta fólkið kosið?“

Árni Páll sagði vinnubrögðin grafa undan tiltrú á stjórnmálin og að flokkur sem gengi fram með þessum hætti gæti ekki lesið yfir öðrum um persónuvernd, gagnsæi, upplýsingaöryggi og réttar leikreglur lýðræðisins. Þingmenn Pírata stigu í ræðustól á eftir Árna Páli og vísuðu gagnrýni hans alfarið á bug. Píratar hefðu margoft sagt að ekki væri hægt að halda leynilegar atkvæðagreiðslur á netinu og fyrir vikið væri slíkt fyrirkomulag ekki heppilegt, til að mynda fyrir þingkosningar.

Bentu þeir einnig á að Samfylkingin hefði sjálf notast við rafrænar kosningar. Píratar væru að prófa nýjar aðferðir við útfærslu lýðræðisins og ekkert væri að því að fara nýjar leiðir í þeim efnum. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist enn fremur aldrei hafa fengið fólk til þess að ganga í flokkinn til þess að kjósa hana í prófkjöri.

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina