Unnið að því að galopna bókhald ríkisins

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Eggert Jóhannesson

Unnið er að því að galopna bókhald ríkissjóðs, með því að gera alla reikninga ríkisins rafræna, í samstarfi fjármálaráðuneytisins og fjársýslu ríkisins. Með þessu verður almenningi gert kleift að sjá í hvað skattpeningar ríkisins fara. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á Strategíudeginum í Hörpu í dag.

Yfirskrift ráðstefnunnar er „Hver má vita hvað?“ og sagði Bjarni að þó að hann hallaðist að því að hafa flestar upplýsingar opinberra aðila þannig að allir vissu sem flest þá hefði hann engu að síður sem ráðamaður stundum þurft að vinna eftir reglunni að enginn mætti vita neitt.

Bjarni sagði að síðan hann hefði verið í háskólanámi fyrir um 25 árum síðan hefði viðskiptalífið tekið miklum breytingum þegar kæmi að skráðum markaði. Þegar hann hefði byrjað í náminu hefði skráður markaður ekki verið til, en núna væri hann til, reglur og lög væru um hann og í dag væri þróunin á þann veg að stjórnendur spyrðu sig hvað væri æskilegt í framkomu fyrirtækja þannig að fjárfestum og samfélaginu líði eins og allt væri uppi á borðum. Sagði hann þetta mjög góða þróun og til marks um þroskun markaðarins.

Þá nefndi hann einnig áskoranir sem stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir standa frammi fyrir í dag. Benti hann á að þeir hefðu áður verið með þá stefnu að vera óvirkir fjárfestar, sem gæfi þeim kost á að vera ekki fruminnherjar, og þar með gert meiri breytingar á fjárfestingum sínum frá degi til dags.

Í dag væri staðan aftur á móti þannig að lífeyrissjóðirnir væru orðnir virkari í stjórnum fyrirtækjanna. Sagði Bjarni að hann væri hrifinn af þeim hugmyndum sem stjórnendur ráðstefnunnar hefðu tjáð sig um að lífeyrissjóðirnir þyrftu í auknum mæli að hafa þessar ákvarðanir sínar og stefnu opinbera, en í gær ræddi mbl.is við Helgu Hlín Hákonardóttur þar sem hún ræddi þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert