Fingraför í náttúru

„Mitt umhverfis- mat, hér á þessari sýn- ingu, er um …
„Mitt umhverfis- mat, hér á þessari sýn- ingu, er um þessi tengsl umhverfisins við tóft- irnar, heildarmyndin,“ segir Borghildur. mbl.is/Golli

Umhverfismat vegna Skarðssels við Þjórsá, nefnist sýning Borghildar Óskarsdóttur myndlistarmanns í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Með sýningunni vill hún sýna hverju verður fórnað ef af fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Þjórsá verður.

Tóftir af bænum Skarðsseli sem forfeður hennar byggðu munu hverfa. Barnabarn og nafna hennar, Borghildur Indriðadóttir, er sýningarstjóri.

„Ég var svo heppin að fá góðan sýningarstjóra. Þótt ég sé með gott og spennandi efni, þá er það uppsetningin sem gerir sýninguna sterka,“ segir Borghildur Óskarsdóttir myndlistarmaður um sýningu sína, „Umhverfismat vegna Skarðssels við Þjórsá“, í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, en sýningin stendur fram til 11. september.

Sýningarstjórinn sem um ræðir er barnabarn Borghildar og nafna, Borghildur Indriðadóttir, en hún stundar nám í arkitektúr í Berlín. Borghildur segist ekki hafa verið í neinum vandræðum með að treysta dótturdóttur sinni fyrir uppsetningunni. „Hún kom með nýjar hugmyndir og aðra sýn á hlutina og bjó t.d. til nýtt rými í Tjarnarsalnum en það er mjög erfitt að setja upp sýningar þar,“ segir hún.

Á sýningunni hanga stórar myndir niður úr loftinu og ná að mynda nýtt rými.

Heiti sýningarinnar vísar með beinum hætti í inntak sýningarinnar sem hverfist um umhverfismat Borghildar vegna Skarðssels. Þar byggðu forfeður hennar bæ og eftir standa tóftirnar. Þarna verður fyrirhuguð Hvammsvirkjun, efst af þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár og ef af virkjanaframkvæmdum verður munu tóftirnar eyðileggjast. Borghildur er á móti þessum virkjunum og vill með sýningunni sýna hverju verður fórnað.

Skarðsselstóftirnar voru grafnar upp í sumar og var uppgröfturinn liður í lögbundnu umhverfismati vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda. „Ég vissi ekki fyrr en samdægurs að þarna væri verið að grafa. Mér brá þegar ég kom þangað í júní því þessi staður hefur lengi verið mér sem heilagur. Þetta voru fallegar grónar tóftir og hlaðnir garðar á bökkum Þjórsár. Í fyrstu fannst mér eins og verið væri að eyðileggja friðsældina og fegurðina en um leið var merkilegt að sjá allar vistarverurnar og hleðslurnar svona greinilega og vinna fornleifafræðinganna var frábær. Þeir fræddu mig um ýmislegt, t.d. hvernig skipulagið hafði verið, stofan og kálgarðurinn, búrið, eldhúsið og pínulitla fjósið o.s.frv.,“ segir Borghildur og bætir við að eftir að hafa rætt við fornleifafræðingana hafi hún fengið skýrari sýn á búskaparhætti forfeðra sinna.

Þrátt fyrir að hafa vitað lengi af virkjanaframkvæmdum á þessu svæði hafði hún talið að sjálfar tóftirnar færu ekki undir vatn. En nú virðist augljóst af teikningum að dæma, að þær fara undir sjálfan stíflugarðinn, að sögn hennar.

„Ég fann það á mér, þegar ég stóð þarna við tóftirnar í júní, að ég þyrfti að vinna með þetta, segja frá þessu með einhverjum hætti. En sannleikurinn er sá að á dagskrá er að umbylta öllu þessu landsvæði.“

Á sýningunni eru stórar ljósmyndir af tóftunum og umhverfi þeirra og til að marka sín eigin fingraför á tóftirnar þá raðaði Borghildur handgerðum leirskálum sínum þar inn í og ofan á. Um leið vill hún opna augu okkar fyrir samspili manngerðu minjanna og stórbrotinnar náttúrunnar sem umlykur þær.

„Ég hafði tilfinningu fyrir því að ég þyrfti að fara þarna inn með eitthvað frá sjálfri mér til að tengjast enn betur. Tóftirnar eru mikilvægar en fyrir mér er heildin enn mikilvægari, allt umhverfið spilar með. Og nú hef ég gert mitt umhverfismat. Það er alltaf verið að meta allt landið okkar með þá hugsun að virkja. Mitt umhverfismat, hér á þessari sýningu, er um þessi tengsl umhverfisins við tóftirnar, heildarmyndin.“

Ekki nógu gamlar tóftir

Bærinn var byggður fyrir 125 árum. Það gerðu Höskuldur Jónsson og Arndís Magnúsdóttir, langafi og langamma Borghildar, árið 1894, eftir að hafa hrakist frá eldra bæjarstæði Skarðssels, norðan Skarðsfjalls, undan sandburði sem hafði sléttfyllt allar lautir í túnum og spillt vatnsbóli.

Tóftirnar eru á grösugum árbökkum Þjórsár norðaustan við Skarðsfjall. Höskuldur og Arndís fluttu og endurbyggðu bæinn þar. Byggingarlag hússins var, þegar það var reist, mjög gamaldags. Í raun margra alda gamalt byggingarlag, enda lítið um nýjungar yfirleitt hjá fátæku bændafólki á þeim tíma, að sögn Borghildar.

Tóftirnar voru grafnar upp í sumar til að rannsaka þær og kanna hvort það væri eitthvað eldra undir en svo reyndist ekki vera. „Kannski eru þær ekki nógu gamlar til að lögð sé áhersla á verndun, þótt merkilegar séu. Ég veit það bara ekki,“ segir Borghildur.

Ræturnar mikilvægar

Ræturnar og hlutskipti forfeðranna hefur lengi verið Borghildi hugleikið og hefur hún síðustu áratugina unnið myndlist sem tengist náttúru og landsvæðum og sögu forfeðra hennar. „Það sem kveikir áhuga er eitthvað sem maður heyrir merkilegt úr fortíðinni eins og frásögnin um afa minn og ömmu sem send voru á sveitina, sveitina sem afi minn var frá, Flóann, og börnin þar sett niður á hina og þessa bæi. Ég fór með föður mínum um þessar sveitir og hann sagði mér sögur,“ segir Borghildur. Seinna fóru þau upp á Rangárvelli og í Landsveitina, en þaðan var amma hennar. „Við leituðum þar uppi bæi og bæjartóftir og undanfarin ár hef ég kynnt mér sögu þessa fólks og baráttu þess við náttúruöflin og um leið hef ég tengst landsvæðinu sterkum böndum.“

Frásagnir af lífi forfeðranna í stórbrotnu landslagi Rangárvalla og Landsveitar hefur Borghildur notað í listsköpun sinni. Forfeður hennar bjuggu þarna á mörkum byggðar og óbyggðar þar sem landið er í sífelldri endursköpun vegna eldgosa, jarðskjálfta og sandstorma. Verk hennar fela í sér vinsamlega hvatningu um að læra að þekkja söguna og virða hana.

„En sannleikurinn er sá að á dagskrá er að umbylta …
„En sannleikurinn er sá að á dagskrá er að umbylta öllu þessu landsvæði.“ mbl.is/Golli
Tóftirnar eru á grösugum árbökkum Þjórsár norðaustan við Skarðsfjall.
Tóftirnar eru á grösugum árbökkum Þjórsár norðaustan við Skarðsfjall. Ljósmynd/Borghildur Óskarsdóttir
Borghildur eldri og yngri.
Borghildur eldri og yngri. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »