Ekki svo hræðilegt að vera öðruvísi

Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt.
Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt. mbl.is/Árni Sæberg

Einhverfa þarf ekki að vera neikvæður hlutur og hún getur verið gjöf, allt eftir því hvernig fólk lítur á hana, að sögn Brynjars Karls Birgissonar. Í erindi á TEDxKids-ráðstefnu í San Diego deildi hann með gestum hvernig hann fann sig í að smíða sex og hálfs metra langt líkan af Títanik úr legókubbum.

Brynjar Karl vakti mikla athygli þegar hann smíðaði líkanið úr yfir 56.000 legókubbum árið 2014. Sjónvarpsstöðin Discovery hefur meðal annars fjallað um smíðina og nýlega var Brynjari Karli boðið til Kaliforníu til að halda erindi á TEDxKids-ráðstefnu þar. 

Þar lýsti Brynjar Karl því hvernig hann var eins og öll önnur börn til að byrja með og ekkert benti til þess að hann væri á nokkurn hátt frábrugðinn. Það hafi hins vegar breyst þegar hann var þriggja ára gamall.

„Skyndilega gat ég ekki sagt allt sem ég vildi. Öll orðin sem ég hafði lært hurfu í þoku, og það gerði ég líka. Ég varð eftir á, fastur í þokunni. Orðin vildu ekki koma út rétt og ég gat ekki sett þau saman rétt. Ég breyttist úr glöðum strák í óhamingjusaman og einmana dreng,“ sagði Brynjar Karl sem nú er þrettán ára gamall.

Fann „X-faktorinn“ sinn

Þegar hann var fimm ár var hann greindur með einhverfu. Fjölskyldan og kennarar hafi þá fundið ýmsar leiðir til að láta honum líða betur í þokunni.

„Það er erfitt að útskýra hvernig það er að vera einhverfur því hef alltaf haft hana. Ég þekki ekkert annað. Ég veit ekki einu sinni hvað er að vera venjulegur, hvað sem það nú þýðir,“ sagði Brynjar Karl.

Einhverf börn eigi stundum erfitt með að skilja merkingu orða og eignast vini. Þau geti líka verið mjög endurtekningasöm. Það sagði Brynjar Karl hins vegar gott því þegar fólk gerði sama hlutinn aftur og aftur yrði það mjög gott í því. Þannig hafi hann orðið hæfileikaríkur legósmiður.

Hann hafi fundið „X-faktor“ sinn þegar hann sameinaðu legóáráttuna og gríðarlegan áhuga á stórum skipum eins og Títanik. Sú hugmynd hafi fæðst með honum að byggja líkan af Títanik úr leggókubbum á skala legókalla.

„Ég varð bara að byggja það ótrúlega skip. Það var enginn vafi í huga mínum að ég gæti gert það. Þessi ákvörðun varð nýja þráhyggja mín,“ sagði Brynjar Karl.

Frétt mbl.is: Brynjar Karl kom fram á TedXKids

Afi hans hafi hjálpað honum að gera teikningar að legóskipinu með því að skala niður upphaflegu teikningarnar að Títanik. Þá hafi þeir getað áætlað hversu marga kubba þyrfti til verksins. Með hópfjármögnun tókst Brynjari Karli að kaupa alla kubbana sem þurfti og smíða skipið á 700 klukkustundum yfir ellefu mánaða tímabil.

Á leiðinni hafi hann lært hvað það var sem dreif hann áfram að markinu. Mikilvægast væri að trúa á það sem maður tekur sér fyrir hendur, gott teymi til aðstoðar sem í hans tilfelli var fjölskyldan og síðast en ekki síst að gefast aldrei nokkurn tímann upp.

Einhverfa getur verið gjöf

Brynjar Karl sagðist ekki viss um að hann myndi taka þá pillu ef einhvern tímann fyndist lækning við einhverfu.

„Mér er sama um að vera einhverfur. Svo lengi sem ykkur er sama um að ég sé öðruvísi, þá hef ég það alveg fínt. Að vera öðruvísi er ekki svo hræðilegt. Ég vil trúa því að það sé áhugaverðara,“ sagði Brynjar Karl.

Einhverfir geti þjálfað veikleika sína og orðið sterkari borgarar.

„Ég og margir aðrir eru lifandi sönnun þess að einhverfa þarf ekki að vera neikvæð, hún getur verið gjöf. Það veltur allt á því hvernig þú lítur á hana og ég kýs að líta á hana sem jákvæða,“ sagði Brynjar Karl við mikið lófatak ráðstefnugesta.

mbl.is