Búið að ræna bestu árum lífs hans

Einar Pálmi var forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings þegar markaðsmisnotkunin átti …
Einar Pálmi var forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings þegar markaðsmisnotkunin átti sér stað. mbl.is/Brynjar Gauti

Verjandi Einars Pálma Sigmundssonar, fv. forstöðumanns eigin viðskipta Kaupþings, segir hann hafa verið rændan bestu árum lífs síns vegna rannsóknar og málareksturs í kringum markaðsmisnotkunarmál bankans. Samstarfsmenn hans hafi lýst honum sem „heiðarlegasta manni Íslands“ og „mest solid guy ever“.

Einar Pálmi hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir aðild sína að markaðsmisnotkun. Hann var talinn hafa fyrirskipað umfangsmikil kaup Kaupþings í eigin hlutabréfum til að gefa ranglega til kynna að meiri eftirspurn væri eftir bréfunum en raunin var.

Gizur Bergsteinsson, verjandi Einars Pálma, sagði það ekki líta vel út að benda á aðra en fyrir lægi að ákvörðunarvald um viðskipti með eigin bréf hefði verið komið úr höndum starfsmanna eigin viðskipta árið 2006, áður en Einar Pálmi kom til starfa hjá bankanum árið 2007.

Ingólfi Helgasyni, forstjóra Kaupþings á Íslandi, hafi verið falið að sjá um deildina og hann hafi tekið allar stærri ákvarðanir og markað stefnu um hversu mikið bankinn ætti að eiga í sjálfum sér. Þegar Einar Pálmi hafi verið ráðinn í byrjun árs 2007 hafi yfirstjórnin ekki ætlað honum taka ákvarðanir um slík viðskipti.

Grunlaus um að viðskiptin væru ólögleg

Þá sagði verjandinn að leyndin í kringum fjármögnun viðskiptanna þegar Kaupþing seldi bréfin sem bankinn hafði keypt til félaga og veitt lán gegn litlum eða engum veðum fyrir þeim hafi valdið því að starfsmenn eins og Einar Pálmi hafi ekki áttað sig á hvernig var í pottinn búið. Ekkert gaf þeim tilefni til að ætla að bankinn byggi sjálfur til eftirspurn eftir bréfum sínum. Því hafi þeir trúað þar til skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út árið 2010.

Einar Pálmi hafi verið grunlaus um að viðskiptin væri ólögleg enda hafi hún verið hafin löngu áður en hann hóf störf hjá bankanum. Regluvörður bankans hafi jafnframt sagt honum að það væri Ingólfs að hafa áhyggjur af lögmæti viðskiptanna en ekki hans.

Krafðist verjandinn þess að Einar Pálmi yrði sýknaður en að öðrum kosti að refsing hans yrði milduð. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að háttsemin sem sakfellt var fyrir hafi verið að undirlagi hans.

Benti Gizur á að Einar Pálmi hafi í tvígang misst starf sitt vegna málsins og því sætt verulegri refsingu nú þegar. Hann sé atvinnulaus í dag. Í framburði regluvarðar Kaupþings hafi komið fram að hann hafi alltaf verið samviskusamur og leitað eftir því að hafa hlutina í samræmi við lög og reglur. Þá sýni hleruð samtöl undirmanna hans að þeir hafi lýst honum sem „heiðarlegasta manni Íslands“ og „mest solid guy ever“.

Gagnrýndi verjandinn hversu langan tíma málið hafi tekið og að hægt væri að kenna saksóknar um að minnsta kosti árs drátt á því.

„Það er búið að ræna ákærða bestu árum lífs hans,“ sagði verjandinn.

Ungir menn sem voru stolt foreldra sinna

Halldór Jónsson, lögmaður Birnis Sæs Björnsson sem var starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings sem hlaut átján mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir sinn þátt í markaðsmisnotkuninni, sagði unga nýútskrifaða drengin eins og skjólstæðing sinn hafa verið stolt foreldra sinna sem hafi fengið vinnu hjá flottasta banka Evrópu.

Þeir hafi fylgt lögum og reglum en regluvörður Kaupþings hafi lýst því í hversu erfiðri stöðu þeir hafi verið. Halldór sagði enga sanngirni í því að láta þessa ungu drengi gjalda fyrir vanmátt eftirlitskerfis innan og utan bankans. Í fullkomum heimi hefði regluvörður stöðvað viðskiptin en hann hafi líklega verið í sömu stöðu og þeir.

Lögmaður Péturs Kristins Guðmundssonar, sem einnig var starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings og hlaut átján mánaða skilorðsbundinn dóm, sagði að þeir Birnir Sær hafi lagt sig fram um að upplýsa málið og ekki haft neina persónulega hagsmuni af brotunum. Þeir hafi aðeins framfylgt fyrirskipunum yfirmanna sinna og fengið fullvissu frá yfirboðurum sínum um að þeir væru að fara eftir lögum og reglum. Þeim hafi verið alls ókunnugt um fjármögnun bankans á kaupum félaga á hlutabréfum bankans sem ákært er fyrir.

Verjandi Bjarka Diego, fv. framkvæmdastjóra útlána Kaupþings, krafðist sýknu skjólstæðings síns. Ráðist hafi verið að einum hornsteina réttar sakborninga þegar símtöl hans við lögmenn voru hleruð.

Þá sagði hann að stjórnendur Kaupþings hafi verið búnir að taka ákvarðanir, gefa fyrirmæli og skuldbinda bankann áður en Bjarki kom að lánveitingunum til félaganna sem keyptu bréf í Kaupþingi með lánum frá bankanum sjálfum.

Birnir Sær Björnsson, Einar Pálmi Sigmundsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, …
Birnir Sær Björnsson, Einar Pálmi Sigmundsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. starfsmenn Kaupþings sem hlutu skilorðbundna fangelsisdóma í málinu. mbl.is
mbl.is