Hæstiréttur tekur Kaupþingsmál fyrir

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður

Mál níu fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna Kaupþings verður tekið fyrir í Hæstarétti í dag. Sjö þeirra hlutu dóma fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik en þeim var gefið að sök að hafa haldið uppi hlutabréfaverði bankans með ólögmætum hætti í umfangsmesta markaðsmisnotkunarmáli Íslandssögunnar.

Málflutningur í málinu hefst kl. 8 og stendur fram yfir hádegi ef saksóknari og verjendur fullnýta þann tíma sem þeir hafa til að flytja mál sitt.

Þeir sem ákærðir voru í mál­inu voru Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri bank­ans, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, Ingólf­ur Helga­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings á Íslandi, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in viðskipta Kaupþings, Birn­ir Sær Björns­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son, starfs­menn eig­in viðskipta, Bjarki Diego, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri út­lána Kaupþings og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir, fyrr­ver­andi lána­full­trúi í lána­nefnd bank­ans.

Ingólf­ur var dæmd­ur í fjög­urra ára og sex mánaða fang­elsi og Bjarki fékk tveggja ára og sex mánaða fang­els­is­dóm. Hreiðar og Sig­urður voru sak­felld­ir í mál­inu og bætt­ist eins árs fang­elsi við dóm Sig­urðar sem hann hafði hlotið í al-Thani-mál­inu. Hreiðari var ekki gerð frek­ari refs­ing en hann hafði hlotið í sama máli.

Birn­ir Sær og Pét­ur voru dæmd­ir í átján mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og Ein­ar fékk tveggja ára skil­orðsbund­inn fang­els­is­dóm.

Björk var sýknuð af ákæru um umboðssvik í héraði. Nokkr­um ákæru­liðum gegn Magnúsi var vísað frá en hann sýknaður í öðrum liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert