Hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu grunnskóla

Mörg sveitarfélög hafa forgangsraðað í þágu nemenda við gerð fjárhagsáætlana …
Mörg sveitarfélög hafa forgangsraðað í þágu nemenda við gerð fjárhagsáætlana en önnur hafa á síðustu árum skorið niður fjármagn til reksturs skólanna. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Stjórn og formenn svæðafélaga Skólastjórafélags Íslands lýsa yfir þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu margra grunnskóla í landinu nú á haustdögum. Þeir segja að óraunhæfar fjárúthlutanir til grunnskóla og niðurskurður allt frá hruni leiði til skerðingar á lögbundinni þjónustu skólanna.

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt í gær.

Þar segir ennfremur, að mörg sveitarfélög hafi forgangsraðað í þágu nemenda við gerð fjárhagsáætlana en önnur hafi á síðustu árum skorið niður fjármagn til reksturs skólanna.

„Þetta virðist einkum eiga við nokkur af stærstu sveitarfélögunum. Má þar meðal annars nefna að í höfuðborginni er að mati SÍ notað óraunhæft og úrelt reiknilíkan til að deila út fjármunum til grunnskólanna. Þá hefur launakostnaður vegna sérkennslu og stuðnings við nemendur ekki verið bættur að fullu. Jafnframt er gerð krafa um að halli verði greiddur upp á næstu tveimur árum. Á þetta hafa skólastjórar ítrekað bent án þess að gerðar hafi verið úrbætur af hálfu borgarinnar.“

Loks segir, að það sé mikilvægt að nemendur njóti grunnþjónustu og að skólastjórum sé gert kleift að sinna lögbundinni þjónustu með raunhæfum fjárhagsáætlunum sem lúti að því að efla faglegt skólastarf með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert