„Munum að okkur tókst það“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Sigurði Inga Jóhannessyni, forsætisráðherra og varaformanni Framsóknar. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir árangur framsóknarmanna á miðstjórnarfundi flokksins í Hofi á Akureyri. Hann ræddi meðal annars baráttuna við alþjóðafjármálakerfið, sem sé voldugasta kerfi heimsins.

Hann sagði vald kerfisins vera að aukast jafnt á þétt og valdið væri á sama tíma að færast frá almenningi og stjórnmálaflokkum.

Hann sagði Ísland þrívegis hafa haft betur í baráttunni við stærsta kerfið af öllum, fjármálakerfið. Fyrst í Icesave-málinu, næst varðandi skuldaleiðréttingu heimilanna og einnig í baráttunni við slitabúin. „Þetta eru risastór mál, ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur á heimsmælikvarða,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Munum hvað þetta var stór slagur, munum hvað hann skipti fyrir landið okkar, munum að okkur tókst það.“

Hann sagði Framsóknarflokkinn vera lýðræðisflokk, ekki kerfisflokk. „Hvernig hefði kerfið tekið á haftamálunum? Ég tel að það hefði verið aðeins öðruvísi en nálgun Framsóknarflokksins. Þó að við náum ekki að klára þetta allt núna er búið að búa til forsendurnar. Forsendurnar til þess að sækja fram eru komnar,“ sagði hann.

Búist er við að ákveðið verði á miðstjórnarfundinum hvenær flokksþing Framsóknarflokksins fer fram. Þar verður forysta flokksins kjörin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert