Borga fyrir meiri mat en börnin fá

Spara hefur þurft í matarinnkaupum leikskólanna og eiga börnin nú …
Spara hefur þurft í matarinnkaupum leikskólanna og eiga börnin nú að fá morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu fyrir 280 kr. á dag. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórnendur leikskóla í Reykjavík hafa nú 280 krónur á dag til að ráðstafa í matarinnkaup fyrir hvert barn, en á gjaldskrá leikskólanna er engu að síður gert ráð fyrir að foreldrar séu að borga um 384 krónur á dag í matarkaup fyrir börn sín. Dagný Gísladóttir, leikskólakennari á leikskólanum Bakka, vakti athygli á þessum mun í Facebook-færslu um helgina þar sem hún spyr í hvað mismunurinn fari?

„Frá og með 1. ágúst 2016 hafa stjórnendur leikskóla nú 280 krónur á dag sem þeir ráðstafa á barn í matarkostnað,“ segir Dagný í Facebook færslu sinni.

„Á síðu Reykjavíkurborgar má finna gjaldskrá leikskóla frá 1. janúar 2016 og stendur þar skýrt og greinilega hvernig kostnaði er skipt niður. Fyrir morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu borga foreldrar 8320 krónur á mánuði. Ef ég áætla að meðal mánuður sé 4,33 vikur og margfalda það með 5 fæ ég út 21,65 virka daga í mánuði. Með því kemst ég að þeirri niðurstöðu að á dag séu foreldrar að borga 384,3 krónur á dag fyrir börnin sín.“

Hræðilegt að synja börnunum um viðbót

Dagný segir í samtali við mbl.is að hún hafi fengið mikil og sterk viðbrögð við færslu sinni. Gjaldskráin breytist alltaf 1. ágúst, en foreldrar átti sig ekki endilega á því að þeir séu að borga meira skólarnir eru að fá. „Maður getur samt ekki annað en velt fyrir sér hvert mismunurinn fari?“

Sem foreldri og leikskólakennari þá viti hún vel að það sé víða búið að skera inn að beini. „En mér finnst of langt gengið þegar maður getur ekki gefið börnunum góðan mat og hvað þá þegar maður þarf að fara að stoppa þau af í að fá sér viðbót á diskinn. Það finnst mér alveg hræðilegt,“ sagði Dagný í samtali við mbl.is.

Minna skammtað á hvern disk

María Vilborg Hauksdóttir, leikskólastjóri á Bakka, staðfestir að leikskólunum sé gert að reka eldhúsið þannig að matarkostnaður fyrir morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu fari ekki yfir 280 kr.

Hún sendi foreldrum barna bréf í síðustu viku um að draga þyrfti úr gæðum matarins, m.a. með því að bjóða bara upp á fisk einu sinni í viku og minnka ávaxtakaup. María Vilborg hefur fengið mikið viðbrögð við bréfi sínu.

„Í vor var tilkynnt að það ætti að gera stórinnkaup fyrir leikskóla til að lækka matarkostnað. Það hefur ekki gengið eftir, en lækkunin hefur ekki gengið til baka,“ segir hún og játar að það sé erfitt að bjóða upp á þrjár máltíðir fyrir þennan pening.

„Hér tókum við út aðra fiskmáltíðina, því það er dýrasta máltíð vikunnar og setjum inn meira af kartöflum og gulrótum, auk þess sem minna er skammtað af fisk á hvern disk.“ Á Bakka bjóði þau nú í meira mæli upp á pastarétti og annað slíkt. „Þannig að það verður minni næring og gæði í matnum.“

María Vilborg bendir á að svona sparnaðaraðgerðir komi misjafnlega niður á börnum. „Þeir foreldrar sem eru ágætlega staddir geta gefið börnum sínum vel að borða á kvöldin, t.d. feitan fisk, á meðan að þeir foreldrar sem eru verr staddir fjárhagslega eru kannski að gefa sínum börnum ódýrari mat á kvöldin,“ segir María Vilborg.

„Við höfum áhyggjur af þessar mismunun, en við þurfum að skila fjárhagsáætlun sem stenst, því annars þurfum við að taka það á okkur samkvæmt nýjustu niðurstöðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert