Vilja skoða barkaígræðslumál betur

Ljósmynd frá barkaígræðslunni.
Ljósmynd frá barkaígræðslunni. Ljósmynd/Karolinska Institut

Ekki hefur verið ákveðið hvort hafin verði rannsókn á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis á aðkomu íslenskra stofnana eða starfsmanna þeirra að plastbarkamálinu svonefnda. Þetta segir Birgir Ármannsson, varaformaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Nefndin fundaði í morgun og komu fyrir nefndina fulltrúar frá embætti landlæknis, siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Vísindasiðanefnd. Birgir kaus að tjá sig ekki um afstöðu hverrar stofnunar sem nefndar eru hér að framan en segir gesti dagsins og nefndarmenn vera á einu máli um að skoða þurfi aðkomu íslenskra stofnana að málinu frekar.

„Nefndin er í miðri upplýsingaöflun. Við erum að fara yfir hvaða aðilar hafa komið að þessum málum og hvaða upplýsingar liggja fyrir. Á meðan það er í miðju ferli getum við ekki tekið afstöðu til framhaldsins,“ segir Birgir.

Birgir Ármannsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlistsnefndar.
Birgir Ármannsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlistsnefndar. mbl.is/Golli


Plastbarkamálið vísar til aðgerðar sem framkvæmd var árið 2011. Í henni var plastbarki baðaður stofnfrumum græddur í Erítreumanninn Andemariam T. Beyene sem var á þeim tíma búsettur á Íslandi í námi við Háskóla Íslands og glímdi við banvænt krabbamein í hálsi. Hann lést eftir aðgerðina.

Spurður hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd takist að ákveða hver næstu skref verða fyrir þinglok segir Birgir ekki hægt að segja til um það. „Við ætlum okkur að halda umfjölluninni áfram á meðan við erum að störfum. Það er óvíst hvort niðurstaða verði komin fyrir kosningar en við ætlum okkur að fjalla um þetta mál á næstu fundum okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina