Rammaáætlun í atvinnuveganefnd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tillaga um að rammaáætlun verði færð í atvinnuveganefnd Alþingis var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 15 á Alþingi í dag. Þrír þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Fyrir atkvæðagreiðsluna fór umræða fram um hvort rammaáætlun ætti heima í atvinnuveganefnd eða í umhverfis- og samgöngunefnd.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ráðherranum ekki til sóma“

Í máli Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, kom fram að meiri þekking sé fyrir hendi í atvinnuveganefnd hvað varðar rammaáætlun og því sé réttast að málið fari þangað.

„Að rökin skuli bara vera þessi, að það sé meiri þekking fyrir hendi í atvinnuveganefnd finnst mér ráðherranum ekki til sóma,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði rök umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir neðan allar hellur. „Hér er grímulaust verið að reyna að taka viðkvæman málaflokk um ráðstöfun verndarsvæða um nýtingarflokk og skella í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ljóst má vera hvernig afgreiðslu hann fær,“ sagði Ólína.

Jón Gunnarsson.
Jón Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Persónulegt skítkast

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, greindi frá því að áður hafi verið tekist um málið á Alþingi. „Það er í raun mjög sorglegt að upplifa það enn og aftur hvernig menn byrja á persónulegu skítkasti í þessu máli,“ sagði hann og bætti við að atvinnuveganefnd muni „að sjálfsögðu fjalla faglega um þetta mál“ og muni leita samráðs hjá umhverfis- og samgöngunefnd.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óljós þingsköp

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, kvaðst ekki líta á orð umhverfis- og auðlindaráðherra sem niðurlægingu í garð umhverfis – og samgöngunefndar. „Ég treysti atvinnuveganefnd vel fyrir starfinu. Ég verð að segja að mér finnst þingsköp óljós um hvort málið eigi að fara til atvinnuveganefndar eða umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hallast að því að það gæti verið rétt að málið ætti frekar heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd,“ sagði hann.

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Á háan hest

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði Sigrúnu Magnúsdóttur hafa sett sig á háan hest með því að segja atvinnuveganefnd betur til þess fallna að fjalla um rammaáætlun en umhverfis- og samgöngunefnd. „Í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd hefur farið fjöldinn allur af góðum málum í samstarfi við ráðherrann. Þetta eru þakkirnar.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, kvaðst treysta báðum nefndum fyllilega fyrir málaflokknum. „Þessi tillaga fer til einnar fagnefndar sem er jafnstæð annarri og samkvæmt þingsköpum í lagi.“ Lagði hann til að gengið yrði til atkvæðagreiðslu um málið.

Sigrún Magnúsdóttir sagði það mjög miður að deilt hafi verið um hvar áætlun um vernd og nýtingu auðlinda og landsvæða fái frekari afgreiðslu. „Það var niðurstaða mín eftir að ég lá yfir málinu og eftir þá vinnu sem hafði verið höfð í atvinnuveganefnd að málið færi þangað,“ sagði hún.

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vildi lögfræðiálit

Þvínæst steig Ólína Þorvarðardóttir aftur í pontu og sagði það ekki rétt að málið geti farið í hvora nefndina sem er og vísaði í 13. grein þingskapa. „Það er ekki forsvaranleg að flytja málið á milli nefnda í trássi við þingsköp. Þingið getur ekki afgreitt þessa tillögu fyrr en komið er lögfræðiálit um hvar málið á heima,“ sagði Ólína.

„Það er friðardúfa“

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir því að ráðherra endurskoðaði afstöðu sína og léti af vilja þeirra sem vildu fara með málið til umhverfis- og samgöngunefndar. „Það er friðardúfa,“ sagði hann. „Hin leiðin leiðir til þess að það [málið] festist í nefnd og það verði ekkert úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert