Umdeild bók til þúsund háskólanema

Af Twitter

Félagið Tjáningarfrelsi hefur sent stórum hluta þeirra sem útskrifuðust með framhaldsmenntun úr háskólum síðasta vor bókina Þjóðarplágan íslam eftir norsku blaðakonuna Hege Storhaug en umrædd bók hefur verið mjög umdeild.

Fram kemur í bréfi sem fylgir bókinni að félagið hafi fengið í hendur fjármunir sem safnað hafi verið í þessum tilgangi en bókin hafi verið send til alls um eitt þúsund einstaklinga. Ennfremur segir að vonir standi til þess að þeir sem hafi fengið bókina í hendur gefi hana áfram þegar þeir hafi lesið hana til þess að sem flestir geti kynnt sér efni hennar.

„Bókin á erindi til allra sem vilja ástunda upplýsta umræðu um eitt helsta vandamál, sem steðjar að heiminum nú um stundir. Við teljum að í ykkar hópi séu margir sem eiga eftir að standa framarlega í því að þróa samfélag okkar til bjartrar framtíðar. Þessi bók á erindi til allra sem hafa áhuga á að stunda upplýsta umræðu um þjóðfélagsmál,“ segir áfram.

Íris Edda Nowenstein er ein þeirra sem útskrifaðist með framhaldsmenntun úr háskóla síðasta vor og fékk bókina senda. Hún birtir mynd af bókinni og bréfinu á Twitter-síðu sinni í dag og er ekki par sátt við sendinguna. „Þessi sending beið mín þegar ég kom heim. Ég er í sjokki, og bara brjálæðislega reið.“

mbl.is