Æstur múgur myrti Baskana

Á skipbrotsstað - Baskavígin.
Á skipbrotsstað - Baskavígin.

Heimildarkvikmynd um Baskavígin verður frumsýnd á San Sebastian-kvikmyndahátíðinni og á RIFF á næstu vikum. Þar segir frá örlögum baskneskra sjómanna sem myrtir voru af mikilli grimmd að undirlagi Ara í Ögri árið 1615. Talað er um að þetta séu einu fjöldamorðin sem Íslendingar hafa framið en atburðanna var minnst í fyrra þegar 400 ár voru liðin frá voðaverkunum. Kvikmyndin Baskavígin er unnin í samvinnu Spánverja og Íslendinga og hefur RÚV keypt sýningarrétt að henni.

Hjálmtýr Heiðdal.
Hjálmtýr Heiðdal. mbl.is/Rax

„Þetta reddast“-viðhorfið

„Myndin er stórgóð, ég er reyndar ekki búinn að sjá lokaútgáfuna,“ segir Hjálmtýr Heiðdal hjá kvikmyndagerðinni Seylunni sem framleiddi myndina í samstarfi við baskneska kvikmyndafyrirtækið Old Port Films sem hóf undirbúning að gerð heimildarmyndar um þessa atburði. „Þau komu með skömmum fyrirvara og voru að leita að meðframleiðanda og ég hafði áhuga á því. Þetta var keyrt áfram af mikilli bjartsýni, það var Íslendingabragur á þessu, að þetta myndi reddast. Og það hefur allt reddast,“ segir Hjálmtýr en hann sá m.a. um að afla fjár. Myndin er að stærstum hluta tekin hér á landi og því þurfti einhvern staðkunnugan þannig að ég sló til,“ segir hann um tildrög aðkomu sinnar að myndinni. „Þetta var gert á miklu skemmri tíma en maður hefði haldið að væri mögulegt“ segir Hjálmtýr en myndin var kvikmynduð bæði á Spáni og Íslandi.

Ótrúleg hjálpsemi úti á landi

Í myndinni eru mörg sviðsett atriði sem tekin eru upp á sögustöðum á Vestfjörðum auk atriða sem eru tekin í öðrum landshlutum. Hingað komu 25 Spánverjar og þurfti Hjálmtýr að safna saman um 120 aukaleikurum og þremur íslenskum aðalleikurum ásamt tækniliði. Farið var á ellefu staði á landinu og tóku tökurnar hálfan mánuð. Hjálmtýr segir að það hafi verið að mörgu að huga þegar allt að fjörutíu manna lið var á tökustað í einu. Sjá þurfti fyrir gistingu, bílaleigubílum og mat.

Ármann Guðmundsson í hlutverki Ara í Ögri - Baskavígin.
Ármann Guðmundsson í hlutverki Ara í Ögri - Baskavígin.

„Það væri gaman að það kæmi fram, þessi rosalega hjálpsemi fólks úti á landi. Við erum mjög þakklát, það var alveg sama hvar við komum, það var hægt að redda öllu og alls staðar opnar dyr. Í Borgarnesi voru kvikmyndaðar nætursenur og fengum við endurgjaldslaust aðstöðu í tveimur einbýlishúsum rétt hjá tökustaðnum. Bílskúr fengum við á öðrum staðnum fyrir búningaaðstöðu og sminkaðstöðu í eldhúsinu. Og í næsta húsi höfðu húsráðendur opið í tvær nætur fyrir leikara og starfsfólk. Það var skítakuldi allan tímann sem tökurnar stóðu og var ég búinn að vara Spánverjanna við þannig að þeir voru ágætlega klæddir,“ segir hann og hlær.

„Eins og með aðalleikarann, það þurfti að bleyta hann þegar hann var drepinn við sjó og setja á hann blóð. Það var heilmikið mál að passa að hann ofkældist ekki,“ segir Hjálmtýr.

Alltaf fjárhagsleg áhætta

Viðamikil mynd sem þessi kostar sitt og forvitnast blaðamaður um kostnaðarhliðina. „Hún ætti að kosta hundrað milljónir en af því að þeir peningar voru ekki til þá kostaði hún um fimmtíu. Til að draga úr áhættunni verður að fjármagna myndina að mestu áður en tökur hefjast. Maður tekur þó alltaf vissa áhættu, ég enda kannski með fimm hundruð krónur á tímann, ég veit það ekki enn. Myndin er aðallega fjármögnuð á Spáni en að hluta til hér. Þetta er átakasaga og flott kvikmynd og gæti því selst víða,“ segir Hjálmtýr. „Ég fékk styrk frá Kvikmyndasjóði og sel Sjónvarpinu myndina,“ segir hann en myndin uppfyllir einnig skilyrði um endurgreiðslu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. „Hilmar Örn Hilmarsson semur tónlistina og gerir það listavel. Það er líka skilyrði að það sé íslenskt listrænt framlag í myndinni, annars styrkir Kvikmyndasjóður ekki verkefnið.“

Sigurður H. Pálsson fer með hlutverk Jóns lærða Guðmundssonar.
Sigurður H. Pálsson fer með hlutverk Jóns lærða Guðmundssonar.

Hjálmtýr segir að alls staðar hafi verið sparað. „Maður gat ekki ráðið í hvert einasta skipsrúm, það voru ekki peningar til í það. Auk þess að vera meðframleiðandi var ég líka það sem kallast „location manager“ og hafði umsjón með hvað gerðist á hverjum stað. Og konan mín, Anna Kristín Kristjánsdóttir, valdi alla íslensku leikarana en hún er sjálf áhugaleikari og þekkir því vel til á þeim vettvangi. Hún sá einnig um velferð leikaranna og starfsliðsins, það varð alltaf að vera til nesti og heitt kaffi á tökustað, enda veður fremur óhagstætt.“

Morð til að breiða yfir glæp

Sagan sem sögð er í myndinni er ákaflega sorgleg en 31 Baski var drepinn með köldu blóði. Hjálmtýr segir að hræðsla við útlendinga ásamt glæpum Ara í Ögra hafi verið orsök morðanna. „Það var ákveðinn ótti í fólki og menn vissu aldrei hvað var í vændum þegar segl sást við sjóndeildarhring. Fólk flúði jafnvel til fjalla þótt það væru bara vinveittir fiskimenn,“ segir hann.

Baskar tóku að venja komur sínar hingað til hvalveiða á þessum tíma, sem var mjög ábatasöm atvinnugrein. „Í lok vertíðarinnar fórust skip þeirra í óveðri og þá voru komnir á land 83 skipbrotsmenn. Sumir þeirra lentu hjá góðu fólk sem hjálpaði þeim og það gekk vel. En meðal Baskanna voru einnig nokkrir ribbaldar sem stálu frá Íslendingunum og þá urðu illindi. Ari í Ögri veitti þeim leyfi til að veiða hvali, án leyfis frá dönskum yfirvöldum. Þetta voru því fölsuð leyfisbréf. Þegar Ari safnar síðan liði og drepur Baskana er hann í raun að breiða yfir eigin glæpi. Jón lærði Guðmundsson skrifaði um þessa atburði og fékk bágt fyrir. Hann var sendur í útlegð,“ útskýrir Hjálmtýr, en leiðarstef kvikmyndarinnar er samtímaheimild Jóns lærða. „Þetta eru einu fjöldamorðin sem Íslendingar fremja, æstur múgur myrti Baskana með hroðalegum hætti. Þeir voru ýmist skotnir eða höggnir.“

Afkomendur sættast í lokin

Er þetta ekki svartur blettur á Íslandssögunni?

„Jú, þetta er það,“ segir Hjálmtýr. „En í lok myndarinnar eru sættir. Í fyrra voru 400 ár síðan þetta gerðist og það var settur upp minningarsteinn á Hólmavík. Illugi menntamálaráðherra mætti ásamt Jónasi Guðmundssyni, sýslumanni Vestfjarða, og ýmsum gestum auk fulltrúa frá Baskalandi. Þar er lokasena myndarinnar kvikmynduð, þegar einn af afkomendum Baskanna sem voru drepnir tekur í hönd afkomanda eins morðingjans,“ segir hann.

Talið víkur að þeim fimmtíu basknesku skipbrotsmönnum sem voru ekki myrtir með löndum sínum. „Það er ekkert vitað hvað varð um þá. Þeir voru klókir og réðust á enskt skip og stálu því til að sigla heim. En þeir virðast aldrei hafa skilað sér.“

Heiður að vera á San Sebastian

Hjálmtýr segir vinnuna hafa verið ákaflega skemmtilega og verkefnin fjölbreytt sem vinna þurfti. „Ég hafði gaman af því að vinna þessa tegund af verki,“ segir hann og á við að hafa leikið efni með í bland við viðtöl. „Leitin að tökustöðum spannaði allt landið. Í byrjun voru Spánverjarnir spenntir fyrir húsum sem eru í víkingastíl. Ég byrjaði á að koma þeim af þeirri braut þar sem þessir atburðir gerðust á allt öðrum tíma,“ segir hann en vel tókst til að lokum. Hjálmtýr segir það mikinn heiður að komast með myndina á stórar kvikmyndahátíðir eins og San Sebastian-hátíðina. „Það er áfangi og hún keppir þar til verðlauna,“ segir Hjálmtýr sem hlakkar til að fara á hátíðina ásamt konu sinni, Önnu Kristínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »