Gervihnöttur í Gufudal

Íbúðarhúsið í Gufudal og gervihnattadiskarnir á suðurhlið þess.
Íbúðarhúsið í Gufudal og gervihnattadiskarnir á suðurhlið þess. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fólk á bænum Gufudal í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu þarf gervihnattadisk til þess að ná útsendingum RÚV. Á íbúðarhúsi á bænum eru tveir slíkir diskar, annar til þess að ná útsendingum sjónvarpsins. Hinn var notaður til skamms tíma til að halda uppi netsambandi en er nú kominn úr gagni.

Þurfti að finna nýjan karl

Gufudalur er nokkuð innarlega á strandlengju sunnanverðra Vestfjarða. Þangað fluttu Erna Guðnadóttir og þáverandi maður árið 2012. Þá hafði jörðin verið í eyði í nokkurn tíma og nýir bændur höfðu því í mörg horn að líta.

„Þetta var ódýrasta jörðin sem bauðst og því lá leiðin hingað af Suðurlandinu. Eftir búskap í nokkur misseri skildu ég og maðurinn minn og þá þurfti ég náttúrlega að finna mér nýjan karl og það tókst,“ segir Erna, sem er í sambúð með Björgvini Matthíasi Hallgrímssyni. Saman eiga þau þriggja vikna gamla dóttur og fyrir á Erna fjögur börn.

Þau Erna og Björgvin reka stórt sauðfjárbú en byggja afkomu sína á fleiru.

Nú í sumar birti til í Gufudalssveit, sem þá komst í sæmilegt netsamband, þar sem hraðrásum fjarskiptanna er speglað frá Reykhólum og þaðan fram og til baka um loftið. „Til skamms tíma höfðum við mjög slitrótt netsamband en erum nú með ágætt 4G-samband og það leysir úr flestu,“ segir Erna í Gufudal.

Löng leið með skólabílnum

Margt í Gufudalssveit er með óvenjulegum hætti, miðað við til dæmis það sem tíðkast hjá flestum í borgarsamfélagi nútímans. Þannig þurfa börnin í sveitinni að sækja skóla 50 kílómetra leið að Reykhólum dag hvern. Þarna á milli er 45 mínútna akstur – svo að börnin eru í skólabílnum ein og hálfa klukkustund dag hvern. „Vissulega geta krakkarnir orðið þreyttir á þessu flandri enda er þeta löng leið. Það er mesta furða hve vel þeim líkar þetta,“ segir Þráinn Hjálmarsson skólabílstjóri.

Erna Guðnadóttir.
Erna Guðnadóttir.
Þráinn Hjálmarsson skólabílstjóri og krakkarnir í Gufudalssveitinni.
Þráinn Hjálmarsson skólabílstjóri og krakkarnir í Gufudalssveitinni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert