Segja Jens gera úlfalda úr mýflugu

Deildu.net var ein þeirra síðna sem fjar­skipta­fyr­ir­tækj­um var bannað að …
Deildu.net var ein þeirra síðna sem fjar­skipta­fyr­ir­tækj­um var bannað að veita aðgang að.

Athugasemdir Jens Péturs Jensen, framkvæmdastjóra Internets á Íslandi (ISNIC), við lögbann sem lagt var á tvö fjarskiptafyrirtæki á síðasta ári, má auðveldlega misskilja sem andstöðu við baráttu rétthafa gegn ólögmætu niðurhali.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá stjórnendum STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, FRISK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, SFH, Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda og SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

Frétt mbl.is: Lögbannið gagnslaust og skaðlegt

Eins og mbl.is fjallaði um í vikunni sagði Jens það vera gagnslaust, skaðlegt og ósanngjarnt að þvinga fjarskiptafyrirtæki til að meina viðskiptavinum sínum um aðgang að tilteknum vefsíðum, í pistli sem hann skrifaði á vefsíðu ISNIC.

Sýslumaður­inn í Reykja­vík samþykkti lög­banns­kröfu sem bannaði ís­lensk­um fjar­skipta­fyr­ir­tækj­um að veita viðskipta­vin­um aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.ice­land.pm, www.icetracker.org, www.af­ghan­pira­te.com, www.deildu.eu, www.thepira­tebay.se, www.thepira­tebay.sx og trepira­tebay.org.

Alrangt að lögbannið þvingi fyrirtækin til að beita DNS-aðferð

„Hann á að sjálfsögðu rétt á því að hafa sínar skoðanir á þeirri baráttu en það er hins vegar alvarlegra að í pistlinum er farið ranglega með staðreyndir og leikmönnum þannig veitt röng sýn á stöðu málsins. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að leiðrétta þessar rangfærslur,“ segir í yfirlýsingunni en undir hana rita Guðrún Björk Bjarnadóttir hrl., framkvæmdarstjóri STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, Hallgrímur Kristinsson, formaður stjórnar FRISK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, Gunnar Guðmundsson hdl., framkvæmdarstjóri SFH, Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda, og Tómas Þorvaldsson hdl. f.h. SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

„Það er alrangt sem framkvæmdastjórinn heldur fram, að lögbannið þvingi fjarskiptafyrirtækin til þess að beita svokallaðri DNS-aðferð, sem framkvæmdastjórinn telur svo skaðlega fyrir Internetið, til þess að loka á aðgengi að vefsíðunum. Skv. lögbanninu hafa fjarskiptafyrirtækin algerlega frjálsar hendur með að velja þá aðferð sem þau telja best til þess fallna að framfylgja því.“

Snýst ekki um sekt og sakleysi fjarskiptafyrirtækja

Þá kemur fram að það sé einnig misskilningur hjá Jens að barátta rétthafa gegn ólögmætu niðurhali snúist um sekt og sakleysi fjarskiptafyrirtækja. Staðreynd málsins sé sú að fjarskiptafyrirtækin hafi tekjur af því að gera viðskiptavinum sínum kleift að flytja gögn og beri einfaldlega, stöðu sinnar vegna, ýmsar skyldur lögum samkvæmt, t.a.m. skyldur sem lúti að því að geyma upplýsingar í tiltekinn tíma, hindra að óviðkomandi komist í gögn og tæki – og að hefta aðgang að ólögmætu efni. Kröfur sem lögbannið leggi á fjarskiptafyrirtækin séu ekki meira íþyngjandi en aðrar skyldur þeirra lögum samkvæmt og séu einfaldlega hluti af starfsumhverfi þeirra.

„Flestir vita að lögbannið nær ekki að hindra algjörlega aðgang og notkun á vefsíðunum. Það eru engin ný tíðindi að segja frá því. Lögbannið letur samt marga til þess og vekur fólk til umhugsunar. Og vegna lögbannsins er orðið afar erfitt fyrir íslenska notendur síðnanna að bera við grandleysi – nokkuð sem skiptir máli í höfundarétti og málum sem varða ólögmæta eintakagerð á netinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Erfitt að hafa uppi á rekstraraðilum

Þá segir að mjög erfitt sé að finna og draga til ábyrgðar þá sem bera ábyrgð á ólöglegu starfseminni, þ.e. þá sem reka síðurnar og þá sem nota þær. Þeir geti auðveldlega falið slóð sína á netinu og sjaldnast sé hægt að finna á aðgengilegan hátt upplýsingar um hver sé raunverulegur rekstraraðili viðkomandi síðu, „enda eru reglur fyrirtækja eins og ISNIC oftast þannig að ekkert eftirlit er haft með því hvort réttar upplýsingar eru gefnar upp við skráningu á nýjum lénum. Þannig hafa ólöglegar alþjóðlegar síður á borð við Putlocker séð sér fært að notast við íslensk lén fyrir starfsemi sína.“

„Jafnvel þótt hægt sé að finna viðkomandi rekstraraðila er samt sem áður yfirleitt ógerlegt að framfylgja réttlætinu gagnvart þeim annars staðar á hnettinum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að sett var sérstakt úrræði um lögbann gegn fjarskiptafyrirtækum í höfundalög. Það er ótrúlegt að framkvæmdastjóri ISNIC láti eins og hann viti ekki af þessari staðreynd og að hann haldi því blákalt fram að rétthafar geti með auðveldum hætti leitað réttar síns gagnvart þeim brotlegu.“

Stunda ólögmæta starfsemi og eru ekki að fela það

Loks segir í yfirlýsingunni að Jens geri úlfalda úr mýflugu í pistli sínum. „Lögbannið beinist einungis að tveimur vefsvæðum af rúmum einum milljarði vefsvæða sem má finna á netinu. Þau vefsvæði sem lögbannið varðar stunda ólögmæta starfsemi og eru ekkert að fela það. Enginn vill kenna sig við þessa starfsemi og aldrei hefur verið kvartað yfir því að tölvupóstur eða aðrar þjónustur tengdar síðunum hafi lokast vegna lögbannsins.“

Þá sé í öllu falli fráleitt að bera lögbannið saman við þær ritskoðanir og hindranir á upplýsingaflæði sem viðgangast í Kína og Norður-Kóreu. „Staðreyndin er sú að aðgangur að ólögmætum torrent-síðum hefur verið heftur í fjölmörgum vestrænum ríkjum sem státa af sama tjáningarfrelsi og hér á landi, þ.m.t. á Norðurlöndum, Frakklandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og verulegum fjölda annarra landa. Rétt er að geta þess að Evrópudómstóllinn hefur í sambærilegum málum komist að þeirri niðurstöðu að eignarréttindi höfundarrétthafa vega þyngra en réttindi hinna brotlegu til tjáningarfrelsis. Í raun er erfitt að tala um að nokkur höft séu lögð á tjáningarfrelsi þar sem það kvikmyndaefni og tónlist sem um ræðir er aðgengilegt almenningi á fjölmörgum öðrum miðlum, s.s. kvikmyndahúsum, sjónvarpi, VOD og mörgum öðrum löglegum efnisveitum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert