Þörf á nýjum lausnum í ráðningarmálum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur borgaryfirvöld þurfa að beita hugvitinu …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur borgaryfirvöld þurfa að beita hugvitinu til að fullmanna stöður á leikskólum og frístundarheimilum. Mbl.is/Golli

Ekki er víst að 10 liða aðgerðaáætlun í málefnum leik- og grunnskóla sem kynnt var í Ráðhúsi Reykjavíkur nú eftir hádegi muni leysa þann skort sem nú er á starfsfólki á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

„Mönnunarvandinn er ekki fyrst og fremst fjárhagsvandi, heldur er þar oft um að ræða skóla sem hafa fjármuni til að ráða inn fleira fólk, en finna ekki fólkið,“ sagði Dagur.

Mbl.is greindi frá því í gær að tæpur helmingur leikskóla borgarinnar væri nú fullmannaður og starfsmenn vantaði í 71 stöðugildi á leikskólum. Þá vantar 126 starfsmenn í 65 stöðugildi á frístundaheimilum borgarinnar.

Allt samfélagið að sigla inn í tímabil manneklu

„Ég held að við þurfum að nota alls konar hugvit til að finna nýjar lausnir, en það sem vekur mér bjartsýni er að Félag leikskólakennara og Félag foreldra leikskólabarna eru til í að fara í þá vinnu með okkur,“ segir hann.

Meðal annars þurfi að vekja athygli á jákvæðum þáttum í leikskólastarfinu og hversu áhugaverðir og skemmtilegir vinnustaðir þeir séu. „Kannski þarf líka að fara einhverjar nýjar leiðir,“ bætir hann við og bendir á að eldri borgarar hafi verið að kalla eftir því að mega taka að sér hlutastörf. „Þetta er jafnvel fólk sem hefur áður unnið á leikskólum en sem finnur fyrir því að það dregst allt saman frá lífeyrinum.“

Dagur telur það geta verið áhugavert fyrir borgina að skoða einhverjar slíkar lausnir. „Ég held að það gæti verið áhugavert vegna þess að allt samfélagið og ekki bara leikskólarnir eru að sigla inn í tímabil manneklu þar sem vantar fleiri hendur á dekk.“

Hann kannast þá ekki við að ástandið í mannamálum sé verra í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögunum. „Ég heyri sömu áhyggjur alls staðar og ekki bara í leikskólunum,“ segir Dagur. „Heldur líka í hraðvaxtagreinum eins og ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sem og velferðarþjónustu. Þessi mannekla í þjónustustörfum er staðreynd mjög víða og gæti átt eftir að aukast enn frekar á næstu árum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert