33 boðnar sáttabætur vegna Landakotsskóla

Elsti einstaklingurinn sem fékk sáttaboð vegna illrar meðferðar og ofbeldis …
Elsti einstaklingurinn sem fékk sáttaboð vegna illrar meðferðar og ofbeldis af hálfu kaþólsku kirkjunnar er fæddur 1943, en sá yngsti er fæddur árið 1986. mbl.is/Jim Smart

Alls óskuðu 33 einstaklingar eftir sanngirnisbótum frá íslenska ríkinu vegna illrar meðferðar og ofbeldis sem þeir urðu fyrir af hálfu kaþólsku kirkjunnar hér á landi. Öllum einstaklingunum, 18 körlum og 15 konum, var sent sáttaboð um bótaupphæð sem er á bilinu 2,2 til 6 milljón krónur.

Að sögn Halldórs  Þormars  Halldórssonar, umsjónarmanns sanngirnisbóta hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi Eystra, er sá elsti sem fékk sent sáttaboð fæddur 1943, en sá yngsti árið 1986.

Ekki er þó útilokað að bótakröfum eigi eftir að fjölga þar sem bótakrefjandi hefur allt að tvö ár til að lýsa kröfu, hafi honum ekki verið það unnt, þegar frestur til  innköllunar sáttabóta vegna kaþólsku kirkjunnar rann út 10. júní sl.

Halldór segir embætti tengiliðar bótakrafna í innanríkisráðuneytinu hafa fengið töluvert af viðbrögðum strax eftir að auglýsingin birtist, en embættið aðstoðar þá bótakrefjendur sem þess óska við að setja fram kröfu sína.

Hefur 30 daga til að taka sáttaboðinu

Ekki er enn búið að greiða út bætur vegna Landakotsskóla, en Halldór segir embætti sýslumanns þegar hafa borist bréf frá 5-6 manns sem hafi samþykkt sáttaboðið. Enginn höfnun hefur borist, en það gerist líka sjaldan. „Við vitum yfirleitt ekki af afdrifum þess sáttaboðs fyrr en við fáum bréf frá úrskurðanefnd sanngirnisbóta,“ segir hann.

Bótakrefjandi hefur 30 daga til að taka sáttaboði ríkisins en geri hann það ekki, t.d. ef hann telur bæturnar of lágar, þá getur hann skotið máli sínu til úrskurðarnefndarinnar. „Hann hefur þrjá mánuði til þess og nefndin kallar hann þá á sinn fund, þar sem hann þarf að leggja fram töluvert ýtarlegri gögn en hjá okkur.“

Slegið af sönnunarkröfum til að flýta málsmeðferð

„Þetta er tíunda stofnunin sem við erum innkalla bótakröfu vegna,“ segir Halldór og bendir á að verkefnið sé búið að vera í gangi frá því árið 2010.

„Þegar lög um sanngirnisbætur tóku gildi þá var þetta þannig úr garði gert að það væri auðvelt að flýta málsmeðferð með því að slá mjög af sönnunarkröfum.“ Ástæðuna segir Halldór vera þann gífurlega málafjölda sem mögulega lá fyrir. „Það voru um 15.000 manns sem höfðu verið á þessum níu stofnunum sem áttu í hlut, síðan bættist Landakotsskóli við sem tíunda stofnunin.“

Eina sönnunin sem bótakrefjendur þurfa því að leggja fram er að viðkomandi hafi verið á viðkomandi stofnun, eða skóla í þessu tilviki, og útlista síðan á umsóknareyðublaði tjón sitt, hvernig vistin var og hvaða varanlegar afleiðingar dvölin hafði á líf hans. „Síðan er höfð til hliðsjónar skýrsla rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar sem kom út 2. nóvember 2012 og þar eru mjög afgerandi niðurstöður varðandi ýmsar ásakanir sem fram hafa komið.“

Erfitt að meta tjón einstaklings til fjár

Halldór segir upphæð bóta ráðast af mörgum þáttum og hver umsókn er metin sérstaklega. „Það er alltaf erfitt að meta tjón einstaklings til fjár. Það er flókið ferli,“ segir hann. Ekki verði allir fyrir sama tjóni þegar fólk er beitt kynferðislegu-, líkamlegu- eða andlegu ofbeldi.

„Það er þekkt í svona málum að þegar ráðist er gegn einhverjum hópi, að þá verða sumir verr úti en aðrir.“ Mislöng skólavist í Landakotsskóla er einnig tekin með í dæmið, sem og að ástandið hafi verið misjafnt eftir tímabilum. Þannig hafi gerendurnir  t.d. verið orðnir frekar aldraðir undir hið síðasta og því ekki jafn umsvifamiklir og á fyrri árum.

Líkt og áður sagði þá nema sáttabæturnar sem boðnar hafa verið á bilinu 2,2 til 6 milljónir kr. en vegna verðtryggingar þá standa upphæðirnar ekki á þúsundum.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu þá kveða lög um sanngirnisbætur á um að þær bætur sem eru undir 2 milljónum króna greiðist út í einu lagi, en bætur umfram það og allt að 4 milljónum kr. eru greiddar út 18 mánuðum eftir fyrstu greiðslu.  Bætur umfram 4 milljónir kr. og allt að 6 milljónum kr. eru síðan greiddar út 36 mánuðum eftir fyrstu greiðslu og eru greiðslurnar sem geymdar eru verðtryggðar.      

Ísleifur fær rúmar sex milljónir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert