Ætlar ekki að mæta í „sýndarréttarhöld“

Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi formaður samninganefndar íslenska ríkisins í …
Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi formaður samninganefndar íslenska ríkisins í samningaviðræðum við skilanefndir föllnu bankanna Heiðar Kristjánsson

Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi formaður samninganefndar íslenska ríkisins í samningaviðræðum við skilanefndir föllnu bankana, segir að í skýrslu fjárlaganefndar um endurreisn bankakerfisins sé með „niðrandi ummælum vegið alvarlega að starfsheiðri“ sínum.  Segir hann ummæli í skýrslunni að sínu mati vera atvinnuróg, meiðyrði og svívirðingar. Þetta kemur fram í bréfi sem hann sendi á fjárlaganefnd og forseta Alþingis og mbl.is hefur undir höndum, en sagt var frá málinu í hádegisfréttum RÚV.

Allt gekk eftir sem lagt var upp með

Þorsteinn var í febrúar árið 2009 kallaður til verkefna í fjármálaráðuneytinu þar sem honum var falið að leiða viðræður ríkisins við kröfuhafa föllnu bankanna. Segir hann í bréfinu að þeir sem hafi unnið að endurreisn viðskiptabankanna hafi lagt nótt við nýtan dag við að koma upp traustu bankakerfi sem gæti tekið til við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnulífsins og heimila. Þá hafi verið lögð áhersla að verja hag ríkissjóðs í þessari vinnu.

„Allt sem lagt var upp með gekk eftir, bæði hvað varðar styrk fjármálakerfisins og getu þess til að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækja og heimila og ennfremur fjárhag ríkissjóðs. Því sætir það nokkurri furðu að nú, sjö árum síðar, komi fram aðilar sem telja að allt hafi þetta verið illa gert og að mestu undirlægjuháttur við erlenda kröfuhafa,“ segir í bréfinu.

Opinn fundur nefndarinnar „einhverskonar sýndarréttarhöld“

Þá vísar hann til ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, í fjölmiðlum eftir útgáfu skýrslunnar og segir hann að ráða megi af þeim að næstu skref yrðu „annaðhvort að kalla aðila málsins, sem túlka má sem einskonar sakborninga, á fund nefndarinnar sem væri þá opinn fjölmiðlum eða þá að fá óháða aðila til að leggja mat á málið.“

Segir Þorsteinn að í þessu sambandi vilji hann taka fram að eins og meirihluti nefndarinnar hafi lagt upp með megi telja að slíkur fundur verði „ekki annað en einhverskonar sýndarréttarhöld“ sem hann telji sér ekki skylt að mæta til. Hins vegar sé honum ljúft að fara yfir málið með óháðum erlendum aðilum, eins og nefnt hefur verið. Þorsteinn tekur þó fram að aðili ráðinn af meirihluta nefndarinnar sé ekki óháður í hans huga.

 Þá bendir Þorsteinn einnig á að ekki hafi verið leitað til hans né borin nein efnisleg atriði „hinnar svokölluðu skýrslu“ undir hann.

Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna sem þau létu …
Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna sem þau létu gera fyrir blaðamönnum í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri gagnrýnt skýrsluna

Í gær var sagt frá því að Jó­hann­es Karl Sveins­son, hæsta­rétt­ar­lögmaður sem kom að samn­ing­um við er­lenda kröfu­hafa föllnu bank­anna, telji ávirðingar í skýrslunni vera svívirðilegar og jaðri við landráðsásökunum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, birti einnig í gær póst á Facebook þar sem hann sagðist biðjast velvirðingar á því orðalagi sem hefði verið notað í skýrslunni. Þar væru gildishlaðin orð sem gætu valdið misskilningi. Sagði hann að orðalagið yrði endurskoðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert