Íslendingurinn fannst heill á húfi

Frá Alicante á Spáni.
Frá Alicante á Spáni. Ljósmynd/Wikipedia-Diego Delso

Íslenskur karlmaður sem ekkert hafði spurst til í rúma viku á Alicante á Spáni er kominn í leitirnar. Systir mannsins segir að maðurinn sé heill á húfi. Hún fór út að sækja bróður sinn sem var ekki með nein skilríki á sér eftir að hafa verið rændur.

Mbl.is greindi frá því á laugardag að síðast hefði spurst til Valdimars Svavarssonar í ísbúð á Alicante 10. september en þá hafði hann haft samband við bróður sinn. Systir Valdimars heyrði frá íslenskum eigenda ísbúðarinnar, sem var ekki á staðnum, en hann tjáði henni að Valdimar hefði sagt starfsmanni búðarinnar frá því að hann hefði verið rændur. Hann var ekki með síma á sér, ekkert veski og ekkert vegabréf.

„Hann er fundinn,“ sagði Rósa Ólöf Ólafíudóttir, systir Valdimars, í samtali við mbl.is nú á þriðja tímanum í dag. Hún var þá stödd á Alicante en hún fór þangað til að aðstoða og sækja bróður sinn.

Aðspurð segir Rósa að bróðir hennar hafi snúið aftur í sömu ísbúð í gær og þá gat hann látið vita af sér. „Ég fór samdægurs út og svo erum við að redda passanum, og við erum að hitta ræðismanninn,“ segir hún og bætir við að þau muni fljúga aftur heim til Íslands annað kvöld.

Rósa segir að það hafi verið erfiður tími fyrir fjölskylduna á meðan ekkert spurðist til Valdimars. Sem betur fer amaði ekkert að honum, en hann hafði hins vegar þurft að gista utandyra undanfarnar nætur eftir að hafa þurft að yfirgefa hótelið sem hann gisti á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka