Prófkjörsfyrirkomulagið ekki heppilegt

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sammála því að …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sammála því að prófkjörsfyrirkomulagið hafi ekki reynst heppilegt fyrir flokkinn. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir eftirsjá að þeim Helgu Dögg Björg­vins­dótt­ur, nú­ver­andi formanni Lands­sam­bands sjálf­stæðis­k­venna, Þóreyju Vil­hjálms­dótt­ur og Jarþrúði Ásmunds­dótt­ur, fyrr­ver­andi formönnum lands­sam­bands­ins, sem tilkynntu í dag að þær hefðu sagt sig úr flokknum.

„Þetta eru öflugar konur sem hafa látið til sín taka í starfi flokksins og haft áhrif á stefnumótun og áherslur okkar t.d. á síðasta landsfundi og af þeim sökum er eftirsjá að þeim,“ segir Bjarni.

Frétt mbl.is: Yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn

Í Facebook-færslu sinni segja þær ástæðu úrsagnar sinnar vera þá að þær telji „full­reynt að hreyfa við þeim íhalds­sömu skoðunum og gild­um sem ríkja um jafn­rétt­is­mál í Sjálf­stæðis­flokkn­um“. Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé of íhaldssamur í skoðunum varðandi jafnréttismál segir Bjarni flokkinn nýlega hafa gert jafnrétti að einu af grunngildum Sjálfstæðisflokksins.

„Mér finnst einblínt um of á niðurstöður prófkjara í tveimur kjördæmum. Flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum hafa úr mörgum ólíkum leiðum að velja þegar tyllt er saman lista fyrir alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar og það er fólkið í flokknum sem hefur valið að fara þessa leið,“ segir hann.

Prófkjör ekki leið til breytinga

„Ég hef áður harmað það að fleiri konur skyldu ekki hafa unnið sæti ofar á lista, t.d. í mínu kjördæmi.“ Bjarni bendir í því sambandi á að ekki sé þó enn búið að ganga endanlega frá framboðslistanum í  því kjördæmi.

Spurður hvort prófkjör sé úrelt leið til að velja á lista, líkt og þær Helga Dögg, Þórey og Jarþrúður segja í yfirlýsingu sinni, segir Bjarni prófkjörsleiðina svo sannarlega ekki vera gallalausa. „Við höfum séð of mörg dæmi á undanförnum árum um að prófkjör sé ekki leið til breytinga, þ.e.a.s. þeir sem sitja fyrir á fleti eru almennt líklegri til að komast betur frá prófkjörum en nýir frambjóðendur.“ Þessi regla sé þó vissulega ekki algild, þó mörg dæmi sé um slíkt.

„En það sem er kannski verra er að við getum seint sagt að prófkjörin hafi reynst Sjálfstæðisflokkinum leið breytinga í þessum efnum.“

Hann kveðst þó ekki vilja gera lítið úr fjölda glæsilegra prófkjörssigra kvenna og því sé vel hægt að finna dæmi um hið öndverða. Bjarni nefnir sem dæmi  Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, Ólöfu Nordal og  Sigríði Andersen. Eins hafi Hanna Birna Kristjánsdóttir fengið góða kosningu í Reykjavík í síðustu alþingiskosningum. „Þá  kemur Áslaug Arna inn sem nýr frambjóðandi og hún bauð sig fram til ritara á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins á móti sitjandi þingmanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem ákvað að draga framboð sitt til baka,“ segir Bjarni.

Endurspeglar ekki kraft kvenna í Sjálfstæðisflokknum

 „Ég er hins vegar sammála því að prófkjörsfyrirkomulagið hefur ekki reynst heppilegt, en við erum engu að síður með það sem valkost fyrir kjördæmin og kjördæmin hafa valið að fara þessa leið og við höfum viljað virða vilja fólksins í flokknum.“

Í yfirlýsingu Helgu Daggar, Þóreyjar og Jarþrúðar er einnig sagt óásættanlegt að aðeins ein kona verði odd­viti fyr­ir flokk­inn í komandi alþingiskosningum.

Spurður um afstöðu sína til þessa segir Bjarni: „Mér finnst það ekki endurspegla starfið, stuðninginn og getu kvenna í Sjálfstæðisflokknum að það skuli raðast þannig. Mér finnst það ekki endurspegla kraft kvenna í Sjálfstæðisflokknum nægilega vel.“

mbl.is