„Skammastu þín!“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi hælisleitendur á Alþingi í dag og benti meðal annars á að á meðan dvalargjöld hælisleitenda nemi 234.000 kr. á mánuði sé lágmarkslífeyrir 212.000 kr. Hann var gagnrýndur fyrir þennan samanburð og var m.a. hrópað: „Skammastu þín!“

Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins.

Ásmundur hóf ræðu sína á því að segja á Íslendingar gætu verið stoltir af því hvernig tekið væri á móti flóttafólki sem valið væri hingað til lands á hverju ári. Áætlaður kostnaður við komu þeirra á þessu ári væri 431 milljón króna. „Flestir aðlagast vel og mikilvægt að fólk aðlagist samfélaginu og verði þátttakendur í atvinnu- og menningarlífi,“ sagði þingmaðurinn.

„Hælisleitendur er annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er samansettur mest af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfalausir. Með nýsamþykktum lögum útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og er að skila sér. Árið 2014 var fjöldi hælisleitenda 175 en áætlaður fjöldi hælisleitenda verður 700 á yfirstandandi ári, eða 98% aukning frá fyrra ári. Dvalargjöld hælisleitenda, sem ekki fær úrlausn mála sinna, er 7.800 krónur á dag, eða 234.000 krónur á mánuði. 2,8 milljónir á ári. En lágmarksellilífeyrir er þessa dagana 212.766 krónur,“ sagði Ásmundur. 

Þá heyrðist hrópað úr þingsal: „Skammastu þín!“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn

Íslendingar hlusti ekki á reynslu nágrannaþjóðanna

Ásmundur hélt ræðu sinni ótrauður áfram og sagði að samkvæmt aukafjárlögum yrðu settar 640 milljónir til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda. Fyrir hafi verið settir 556 milljónir kr. Heildarfjárhæðin á þessu ári muni því nema 1.200 milljónum. 

„Virðulegur forseti, eitt þúsund og tvö hundruð milljónir er það sem myndi kosta að reka skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, en þar er engin skurðstofa eða fæðingarhjálp að hafa,“ sagði Ásmundur, en ljóst var að margir þingmenn í salnum voru ósáttir við málflutning Ásmundar.

„Kostnaður vegna hælisleitenda hækkar frá árinu 2011 úr 60 milljónum í 1.200 milljónir árið 2016. Á síðustu þremur árum hefur lögfræðikostnaðurinn í innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda verið 174 milljónir króna og á aukafjárlögum er bætt við 55 milljónum í þennan lið,“ sagði Ásmundur ennfremur. 

Hann lauk ræðu sinni á því að segja að með nýjum lögum út útlendinga hafi Íslendingar ekki hlustað á reynslu nágrannaþjóðanna. Hann bætti við að það þyrfti einnig að vanda vinnubrögð í þessum málaflokki.

Hvaða tilgangi á svona málflutningur að þjóna?

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, steig næst í pontu og sagði að honum væri lítt skemmt að koma upp á eftir síðustu ræðu. „Maður spyr sig, hvaða tilgangi á svona málflutningur að þjóna. Útmála það hversu hratt útgjöld séu að aukast vegna þess að við - að okkar litla leyti - erum að takast á við þann risavaxna vanda sem við er að glíma varðandi flóttamenn og landlaust fólk um veröld víða,“ sagði Steingrímur og spurði hvort Ásmundur væri nýr talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki í kjölfar sigurs í prófkjöri í Suðurkjördæmi.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Er gjörsamlega misboðið

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi Ásmund einnig harðlega. „Enginn málflutningur er eins ömurlegur og forsmár eins og að stilla saman tveimur hópum samfélagsins gegn hvor öðrum í stað þess að horfast í augun við, að það er ástæða fyrir því að þeir sem eru aldraðir, veikir eða öryrkjar þurfa að búa við erfið kjör,“ sagði Birgitta. 

„Hans málflutningur [Ásmundar] er nákvæmlega eins og málflutningur þeirra sem vildi ekki taka á móti gyðingum í neyð og sendu þá til baka. Mér er svo gjörsamlega misboðið að hlusta á svona málflutning. Og svo stórkostlega misboðið að þetta sé maður sem að er hér inni á Alþingi fyrir einn af stærstu flokkum landsins,“ sagði hún og bætti við að hún vildi fá að vita hvort þetta væri almennt hugarfar meðal annarra sjálfstæðismanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert