Vigdís biður stjórnskipunarnefnd um rannsókn

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, …
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, kynntu skýrsluna fyrir hönd meirihluta nefndarinnar 12. september. Nú er Vigdís ein skráð fyrir skýrslunni. mbl.is/Eggert

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, hefur sent Ögmundur Jónassyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, bréf þar sem þess er óskað að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að skipuð verði rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68/2011 til að rannsaka seinni einkavæðingu bankanna.

„Meðfylgjandi er skýrsla mín um einkavæðingu bankanna hina síðari. Á fundi fjárlaganefndar 21. september sl. samþykkti meiri hluti nefndarinnar að vísa skýrslunni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þess er óskað að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að skipuð verði rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68/2011 til að rannsaka seinni einkavæðingu bankanna,“ segir í bréfi Vigdísar til Ögmundar.

Hún segir miður að umræða um skýrsluna, sem var kynnt á blaðamannafundi 12. september, hafi verið um form hennar en ekki um efni hennar. Vigdís segir ljóst að mikilvægar nýjar upplýsingar komi fram í skýrslunni.

„Á það ekki síst við um 140 blaðsíður af fylgiskjölum. Rétt er að taka fram að skýrslan hefur tekið breytingum hvað varðar orðalag og framsetningu frá því að hún var fyrst birt í samræmi við yfirlýsingar formanns og varaformanns fjárlaganefndar í liðinni viku,“ segir Vigdís.

Þá segir hún að skýrslan feli í sér mikilvægt efni af ýmsu tagi:

  • Í fyrsta lagi byggist hún á gögnum sem hafa ekki áður verið gerð opinber.
  • (Í öðru lagi byggist hún á svörum frá opinberum stofnunum, þ.e. Fjármálaeftirlitinu, Ríkisendurskoðun, Fjársýslu ríkisins, Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og forsætisráðuneytinu.
  • Í þriðja lagi geymir hún fundargerðir samræmingarnefndar stjórnvalda (Coordination Committee).

„Einnig skal bent á að mikilvægt er að aflétta leynd af gögnum er málið varða og eru varðveitt á nefndasviði Alþingis.

Rétt er að leggja sérstaka áherslu á að skýrsla sem Brynjar Níelsson þáverandi varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vann og birti í febrúar 2015 vegna kvörtunar Víglundar Þorsteinssonar nýtist ekki sem rök fyrir því að skipun rannsóknarnefndar sé nú óþörf,“ segir í bréfinu.

Þá segir hún, að vegna fyrirspurnar Oddnýjar Harðardóttur alþingismanns og formanns Samfylkingarinnar, sem lögð hafi verið fram á fundi fjárlaganefndar 14. september, sé eftirfarandi tekið fram:

  • Vinnu við gerð skýrslunnar var stýrt af formanni fjárlaganefndar.
  • Kostnaður við gerð skýrslunnar vegna sérfræðiaðstoðar var 90.000 kr.
  • Fjárlaganefnd er ekki rannsóknarnefnd og boðar ekki einstaklinga til skýrslugjafar.

„Þá er rétt að taka fram að skýrslan hefur kallað fram viðbrögð innan stjórnsýslunnar sem ekki verða rakin á þessari stundu, enda hefur erindi vegna þeirra nú þegar verið beint til réttbærs yfirvalds,“ segir Vigdís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert