„Hvað er það sem býr til þessi skrímsli?“

Úr kvikmyndinni Anatomy of Violence.
Úr kvikmyndinni Anatomy of Violence.

„Sem manneskja og sem femínisti er það mér mjög mikilvægt að það sé hægt að rjúfa þennan vítahring sem heimurinn býr við - nauðganir sem eiga sér stað um allan heim, allan ársins hring. Ég held að til að stöðva þetta verðum við að reyna að skoða og skilja hvaðan grimmd af þessu tagi kemur,“ segir indversk-kanadíska kvikmyndagerðarkonan Deepa Mehta sem er heiðursgestur RIFF í ár. 

Mehta skoðar í nýjustu mynd sinni, Anatomy of Violence, einn alræmdasta glæp síðari tíma, hópnauðgun og morð á 23 ára gamalli háskólastúlku í Nýju-Delí á Indlandi árið 2012 þegar sex menn réðust á Jyoti Singh Pandey í strætisvagni þar í borg með þeim afleiðingum að hún lést af sárum sínum tveimur dögum eftir árásina. Deepa sem dvelur helming ársins á Indlandi og helming ársins í Kanada var stödd í Nýju-Delí þegar þetta gerðist og eins og fjöldi borgarbúa gerðu fór hún út á göturnar til að mótmæla þennan morgun sem fréttirnar af voðaverkinu bárust.

Deepa er í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem birtist um helgina en þar ræður hún gerð nýju myndarinnar sem var heimsfrumsýnd fyrir um viku á kvikmyndahátíðinni í Toronto en fyrsta sýning hennar á RIFF 2. október er um leið Evrópufrumsýning. Myndir Deepa, sem hafa sópað að sér viðurkenningum og verðlaunum en þekktust er hún fyrir trílógíu sína um frumöflin; Eld, Jörð og Vatn en Vatn var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2007 í flokki erlendra kvikmynda.

Deepa Mehta.
Deepa Mehta. AFP

„Ég er aldrei hrifin af því að vera með einhvern áróður eða skilaboð í kvikmyndum, þá gæti ég allt eins orðið stjórnmálamaður, en ég yrði samt sátt ef þessi kvikmynd yrði kveikja að umræðu, samtali um það hvernig megi rjúfa þennan vítahring sem við erum komin í, og skilning á því hvernig samfélagið sjálft er líka ábyrgt. Samfélagið er ábyrgt fyrir því að skapa menn sem framkvæma slíka glæpi,“ segir Mehta og bætir við að spurning hennar sé: „Hvað er það sem býr til þessi skrímsli?“

Mehta segist telja að Anatomy of Violence sé jafnvel hennar síðasta mynd en kvikmyndagerðarkona er 66 ára gömul. „Ég er ekki hundrað prósent viss en ég held það nú samt. Mér líður eins og allt sem ég hef viljað segja í öllum myndum mínum skili sér fullkomlega í þessari. Sem er athyglisvert í sjálfu sér því þetta er mynd sem ég gerði á allt annan hátt en ég hef gert nokkra kvikmynd. Þessi mynd er ekki falleg, hún er ber og hrá en ég vildi frekar hafa hana eins og „heimavídeó“ en listræna kvikmynd og í henni er því engin tónlist. Allar tilraunir sem ég hef nokkurn tíman viljað prófa í þessari listgrein gerði ég þarna.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert