Vilja afnema lög um kirkjulóðir

Kirkjan á Stokkseyri. Þingmenn Pírata telja að fella eigi út …
Kirkjan á Stokkseyri. Þingmenn Pírata telja að fella eigi út ákvæði í lögum sem skyldar kaupstaði og kauptún að leggja til lóðir undir kirkjur. Sigurður Bogi Sævarsson

Þingmenn Pírata hafa lagt fram lagafrumvarp þar sem fella á úr gildi 5. grein laga um kristnisjóð (lög nr. 35/1970). Í þeirri grein er kveðið á um skyldu kaupstaða og kauptúna að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Þá er einnig tilgreind sama skylda þegar um er að ræða íbúðarhús prests ef um lögboðið prestsetur er að ræða.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að í stjórnarskránni komi fram að Hin evangelíska lúterska kirkja njóti stöðu þjóðkirkju á Íslandi og að ríkið skuldi vernda hana og styðja. Á móti sé einnig kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum óháð trúarbrögðum, skoðunum og öðrum þáttum.

Segja þingmenn Pírata að í ákvæði kristnisjóðslaga sé aðeins talað um kirkjur en ekki kirkjur þjóðkirkjunnar. Telja flutningsmennirnir lögin því ekki grundvallast á 62. grein stjórnarskrárinnar sem veitir þjóðkirkjunni sérstaka vernd og stuðning. 

Bent er á að frá árinu 1999 hafi Reykjavíkurborg túlkað ákvæðið út frá almennum jafnræðissjónarmiðum og þar með ekki gert upp á milli trúfélaga. 

Telja flutningsmenn að núverandi ákvæði sé nógu óskýrt til að vera túlkað misjafnlega af ólíkum aðilum með tilheyrandi lagalegum og pólitískum ágreiningi. Því megi fara tvær leiðir. Önnur feli í sér að ákvæðið tilgreini sérstaklega kirkjur þjóðkirkjunnar en hitt feli í sér að fella ákvæðið niður. Segja flutningsmenn að með fyrri leiðinni sé stigið skref aftur á bak og að slík mismunun sé ekki í takt við þróun samfélagsins í átt til umburðalyndis og jafnræðis óháð trúarskoðunum.

Flutningsmenn eru þau Helgi Hrafn Gunn­ars­son, Ásta Guðrún Helga­dótt­ir og Birgitta Jóns­dótt­ir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert