Krani féll á nýbyggingu í Hafnarstræti

Litlu mátti muna að manntjón yrði því kraninn missti stóran …
Litlu mátti muna að manntjón yrði því kraninn missti stóran bunka af timburfjölum sem féllu á stéttina um hálfan metra frá Bæjarins bestu, rétt áður en hann féll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Byggingakrani féll yfir nýbyggingu í Hafnarstrætinu, rétt við pylsuvagninn Bæjarins bestu nú rétt fyrir hádegi.  Litlu mátti muna að manntjón yrði, en að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þá missti kraninn stóran stafla af timburfjölum sem féllu á stéttina um hálfan metra frá Bæjarins bestu, rétt áður en kraninn féll.

Enginn slasaðist þó er kraninn féll, en hann liggur nú á húsþökum tveggja nýbygginga. Kraninn er hins vegar stór og mikill og því er nú unnið að því að girða svæðið af og meta ástand nærliggjandi bygginga. Unnið er að því að rýma næsta nágrenni og búið er að loka bæði Hafnarstræti og Tryggvagötu.

Lögregla segist gera ráð fyrir að göturnar verði lokaðar fram eftir degi og það sama gildi um pylsuvaginn. Þeir sem þar stóðu hafi enda orðið fyrir miklu áfalli þegar timburstaflinn splundraðist á stéttinni.

Að sögn lögreglu er kraninn mikið beyglaður og telst því ónýtur, en ekki hefur gefist færi á að meta skemmdir á byggingunum. Áður en unnt verður að fjarlægja byggingakranan þarf hins vegar að tryggja að hann valdi ekki frekari hættu.

Lögregla hefur nú umsjón með aðgerðum á vettvangi, þá er búið að senda bæði eslökkviliðsbíl og sjúkrabíl á staðinn, auk þess sem Vinnueftirlitið hefur verið kallað til. 

Kraninn liggur yfir Bæjarins bestu og þarf engann að undra …
Kraninn liggur yfir Bæjarins bestu og þarf engann að undra að þeir sem þar voru hafi fengið áfall þegar kraninn féll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Að sögn lögreglu er kraninn mikið beyglaður og telst því …
Að sögn lögreglu er kraninn mikið beyglaður og telst því ónýtur, en ekki hefur gefist færi á að meta skemmdir á byggingunum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert