Lögreglan á tánum vegna Kötluskjálfta

Lögreglan á Suðurlandi hefur nú hvað mestar áhyggjur af Múlakvísl …
Lögreglan á Suðurlandi hefur nú hvað mestar áhyggjur af Múlakvísl vegna staðsetningar jarðskjálftanna, en þrír stórir skjálftar urðu í Kötlu í nótt. mbl.is/Jónas Erlendsson

Lögreglan á Suðurlandi tekur óróann í Kötlu mjög alvarlega og heldur inn með Múlakvísl í dag til að kanna með fjölda ferðamanna á svæðinu þar í kring. Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi og verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögreglu hafa hvað mestar áhyggjur af þessu svæði í augnablikinu miðað við staðsetningu skjálftanna, en þrír stórir jarðskjálftar urðu í Kötlu í nótt.

Ný frétt kl. 12.47: Öflug skjálftahrina í Kötlu

„Við erum á tánum og förum nú á eftir og könnum með ferðamenn í nágrenni Múlakvíslar,“ segir hann. „Okkar fyrsta verkefni verður að kanna hvað er mikið af ferðamönnum inni í Þakgili, Hafursey og á Mýrdalssandi.“

Frétt mbl.is: Þrír stórir skjálftar í Kötlu

Víðir segir lögregluna á Suðurlandi fylgjast vel með framgangi mála. „Við verðum með innri fund hjá okkur í hádeginu þar sem yfirmenn hjá lögreglunni fara yfir stöðuna, síðan munum við einnig funda með almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra í dag.“

Ítarleg viðbragðsáætlun er til vegna gosa og flóðahættu á Suðurlandi og segir Víðir lögreglu hafa farið yfir áætlunina og áhættustigin þrjú nú í morgun. „Við vorum að fara í gegnum hlutverk allra á óvissu-, hættu- og neyðarstigi,“ segir hann og bætir við að óvissustig yrði fyrsta skref í ferlinu, haldi óróin áfram og menn telji aukna goshættu.

„Mér finnst líka ekkert ólíklegt að við heyrum í okkar helstu samstarfsaðilum í dag og látum þá líka renna yfir áætlunina. Við funduðum reyndar með stjórnendum á Vík og í Klaustri þegar stóri skjálftinn kom um daginn, þannig að menn eru nýbúnir að fara yfir þessi mál en munu hugsanlega gera það aftur í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka