„Viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur“

Mikil brennisteinslykt var úr Múlakvísl í dag.
Mikil brennisteinslykt var úr Múlakvísl í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Almannavarnadeild lögreglustjórans á Suðurlandi fundaði með lögreglustjóra og yfirlögregluþjónum umdæmisins fyrr í kvöld ásamt fulltrúum starfsstöðva embættisins á Klaustri, Vík, Hvollsvelli og Hellu. Víðir Reynisson, verkefnastjóri almannavarna í umdæminu, segir að farið hafi verið yfir verkefnin sem liggja fyrir og mögulega rýmingu ef til eldgoss kæmi.

Víðir segir að með því að setja viðbragðsáætlun á óvissustig, sem sé lægsta stig áætlunarinnar, séu menn að undirbúa sig fyrir mögulegan viðburð, en að enn sé óvíst hvort komi til aukinnar virkni.

Aðspurður um áætlun lögreglunnar vegna fjölda ferðamanna á svæðinu segir Víðir að nú sé víðfeðmt upplýsinganet notað til að koma upplýsingum á framfæri. Þannig séu til dæmis margir fjölmiðlar með fréttir á ensku og notast sé við upplýsingakerfi Safetravels verkefnis Landsbjargar. „Ef kemur til rýmingar notum við SMS-kerfið, en þá eru sendar upplýsingar á íslensku og ensku á alla farsíma á svæðinu,“ segir Víðir, en bætir við að það sé ekki nema að ef til eldgoss kemur.

Hann segir að í rætt hafi verið við fjölda ferðaþjónustuaðila sem eru með starfsemi á svæðinu, svo sem þá sem fara með hópa á Sólheimajökul. Stuttu eftir að mbl.is ræddi við Víði tilkynnti lögreglan um að veginum að jöklinum yrði lokað í nótt og fram á morgun, en þá yrði ákvörðunin endurskoðuð.

Þá segir Víðir að lögreglan muni í kvöld fara á þekkta ferðamannastaði þar sem mögulegt sé að einhverjir séu í tjaldi eða á húsbílum. Þannig muni lögregla keyra inn í Þakgil og athuga með allskonar slóða við Múlakvísl. Segir hann að athugað verði með ferðamenn og þeim bent á að halda á betri staði til að gista á. Telur hann samt ólíklegt að fólk sé á þessum stöðum, „en við munum tékka á því, viljum ekki að fólk sé þar í nótt. Við tökum stöðuna alvarlega og viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ segir Víðir og á máltakið sennilega sjaldan betur við en þegar líkur eru á hlaupi.

Þakgil er sjálft um 30 metrum yfir hæð árfarvegsins, en vegurinn þangað liggur á tveimur stöðum þar sem hlaup gæti farið. Þá segir Víðir að þar gæti einnig safnast gas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert