Fegin að ekki voru tíu í teitinu

Lilja segir skilaboð dómanna tveggja vera skýr; að það megi …
Lilja segir skilaboð dómanna tveggja vera skýr; að það megi hafa mök við stúlku svo lengi sem hún streitist ekki af afli á móti. mbl.is/Eggert

„Við erum í svolitlu áfalli enn þá, ekki það – við bjuggumst ekki við einu eða neinu, en samt sem áður, þegar þessi dómur fellur þá er hann eins og köld gusa í andlitið. Því þetta er svo endanlegt og ekkert hægt að gera meir.“

Þetta segir Lilja Guðný Björnsdóttir, móðir stúlkunnar sem kærði fimm menn fyrir að hafa nauðgað sér í íbúð í Breiðholti í maí árið 2014. Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í málinu í gær og staðfesti þar niðurstöðu héraðsdóms, um að sýkna skyldi mennina af ákæru um nauðgun.

„Mér finnst það viðurkenning í sjálfu sér að þetta fór þó alla leið í Hæstarétt, það er alls ekki allt sem nær þangað,“ segir Lilja í samtali við mbl.is. „En þetta eru alveg gríðarleg vonbrigði og enn og aftur hefur réttarkerfið brugðist þolanda nauðgunar. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir okkur öll og fyrir samfélagið í heild.“

Amma stúlkunnar fékk taugaáfall

Í yfirlýsingu sem Lilja sendi frá sér í kjölfar sýknudóms héraðsdóms, í nóvember á síðasta ári, sagði hún að til skamms tíma litið hefði verið auðveldast fyrir dóttur hennar að sleppa því að leggja fram kæru, eins og ætlun hennar hafi verið fyrstu dagana eftir atvikið.

Frétt mbl.is: „Voru að svala fýsnum sínum“

Að ákveða að kæra svona brot er erfitt og dreg­ur dilk á eft­ir sér. Öll fjöl­skylda brotaþola  sem og vin­ir henn­ar og kunn­ingj­ar verða fyr­ir gríðarlegu áfalli við þess­ar frétt­ir og til að mynda fékk amma henn­ar tauga­áfall og endaði á bráðamót­töku,“ sagði í yfirlýsingu Lilju þá.

Spurð hvernig tilfinning hennar sé núna, eftir að æðsti dómstóll landsins hefur staðfest sýknudóm yfir mönnunum, segist Lilja telja að kæran hafi verið þess virði.

„Ekki endilega fyrir hana sjálfa, allt í kringum þetta er búið að vera hræðilega erfitt fyrir hana, en uppskeran er sú að henni líður samt betur, því nú er hún búin að gera það sem hún getur. Ef hún hefði ekki kært þá hefði þetta verið mikið verra núna. Því þótt niðurstaðan hafi verið sýkna getur hún að minnsta kosti huggað sig við það að hún gerði allt sem hún gat.“

Fræða þarf dómara, lögfræðinga og lögreglu um áhrif áfalla og …
Fræða þarf dómara, lögfræðinga og lögreglu um áhrif áfalla og hvernig áfallastreita lýsi sér, segir Lilja. mbl.is/Eggert

„Vitum öll að þetta var nauðgun“

Lilja segir skilaboð dómanna tveggja vera skýr; að það megi hafa mök við stúlku svo lengi sem hún streitist ekki af afli á móti.

„Þá má líka bjóða vinum sínum með án þess að spyrja brotaþola, og svo mega bara allir þeir sem eftir eru í teitinu taka þátt. Ég er mjög fegin að það voru bara fimm eftir í þessu teiti en ekki tíu eða fleiri,“ segir Lilja. 

„Að trúa því, að einhver vilji taka við hverjum sem er og einfaldlega hleypa þeim, sem eiga leið um herbergið, að í kynlífsathöfnum, er bara algjört bull.“

Frétt mbl.is: „Algjörlega venjulegt kynlíf“

„Við vitum öll að þetta var nauðgun og við vitum líka öll að nauðgun er glæpur þó að öðru ofbeldi sé ekki beitt samhliða athæfinu. Við lærum öll að meta aðstæður frá unga aldri, og þegar það rennur upp fyrir dóttur minni að hún eigi við ofurefli að etja gefst hún upp og metur aðstæður á þann veg að með því minnki hún líkur á meiri skaða.

Þótt það sé jafnvel bara einn gerandi er það staðreynd að hann er yfirleitt sterkari en brotaþoli í þessum málum. Því er ekki óalgengt að brotaþolar gefist fljótlega upp.“

Áfallastreita kemur ekki af sjálfu sér

Þá segir Lilja að taka þurfi virkilega á málum sem þessum, svo kynferðisofbeldi verði ekki liðið lengur í samfélaginu.

„Nauðgun er ofbeldi hvort sem öðru ofbeldi er beitt samhliða athæfinu eða ekki. Það virðist skorta eitthvað í meðferð kynferðisbrotamála, sem veldur því að nánast útilokað er að ná fram sakfellingu nema um annað ofbeldi sé að ræða,“ segir hún og bætir við að fræða þurfi dómara, lögfræðinga og lögreglu um áhrif áfalla og hvernig áfallastreita lýsi sér.

„Áfallastreita kemur ekki af sjálfu sér og það er ekki hægt að gera sér hana upp. Það er staðreynd.“

Lilja segir dóminn dæmi um kerfislægt obeldi gegn þolendum nauðgana.
Lilja segir dóminn dæmi um kerfislægt obeldi gegn þolendum nauðgana. mbl.is/Þórður

Hefði verið auðvelt að skríða í felur

Hún tekur fram að henni finnist brotaþolar eiga skilið mikla virðingu fyrir að kæra.

„Það hefði verið svo þægilegt, á sínum tíma, að skríða bara í felur og segja engum frá. Þess vegna er ekki oft kært daginn eftir brot, en samt er það talið henni til tómlætis að kæra ekki um leið, sem er óneitanlega skrýtið.

Þessi dómur er dæmi um kerfislægt ofbeldi gegn þolendum nauðgana og það opinbera ofbeldi sem hefur viðgengist lengi. Við höfðum svo sannarlega vonast eftir annarri niðurstöðu og öðrum skilaboðum út í samfélagið. En svona fór þetta, og þá dugir ekkert annað en að una því, leggja þetta að baki og halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert