Stór hluti burðardýra eru ungar stúlkur

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Er unnt að koma á framsali frá Brasilíu án fangaskiptasamnings, liggur slíkur samningur fyrir eða er fyrirhugað að gera hann?“ spurði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Spurði hann Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, en tilefni fyrirspurnarinnar er að íslensk stúlka er fangi í Brasilíu. Hún var handtekin ásamt íslenskum manni í Brasilíu um síðustu jól en Össur telur ekki benda til annars en að stúlkan sé fórnarlamb í málinu, ekki glæpamaður.

„Stór hluti þeirra sem verða burðardýr eru ungar stúlkur með engan sakaferil að baki. Eru neyddar til að greiða fíkniefnaskuld með því að vera burðardýr og eru fórnarlömb misneytingar,“ sagði Össur ennfremur.

„Fyrri ríkisstjórn samþykkti í maí 2012 að utanríkisráðherra skyldi undirbúa samninga um flutning dæmdra manna og fullnustu refsingar. Sérstök áhersla var lögð á ríki þar sem mannréttindi íslenskra fanga væru ekki tryggð,“ sagði Lilja í svari sínu.

Ísland hefur ekki gert slíka tvíhliðasamninga en er aðili að Evrópuráðsamningi frá 1983 um flutning fanga. 21 ríki utan Evrópu eru aðilar að honum en Brasilía er ekki þar á meðal og bætti Lilja því við að ekkert Norðurlanda hefði gert slíkan samning við Brasilíu.

Hafinn er undirbúningur að afplánunarsamningi við Brasilíu. „Ég ber þó nokkrar væntingar til þess að framvinda málsins verði nokkuð greið og örugg,“ sagði Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert