Vísar kumlið á óþekktan skála?

Bjarni telur ólíklegt að kuml liggi meira en 300 metra …
Bjarni telur ólíklegt að kuml liggi meira en 300 metra frá næsta skála. mbl

Bjarni F. Einarsson, doktor í fornleifafræði, segir kumlfundinn í landi Ytri-Ása, þar sem tíundu aldar sverð og lærleggur hafa fundist á undanförnum vikum, opna á möguleika á að áður óþekktur skáli leynist í landi Ytri-Ása. Þá veiti sú staðreynd að áin hafi þegar hreinsað ofan af hluta svæðisins, fornleifafræðingum færi á að skoða landið með öðrum hætti en venjulega.

Frétt mbl.is: Áin tók allt nema sverðið og vinstri fótinn

„Þetta er ekki mikið rannsakað svæði,“ segir Bjarni, sem sjálfur hefur unnið að rannsóknum á heiðunum uppi af Böðmóðstungu, þar sem hann telur stærsta skála Íslands hvíla. „Það [Böðmóðstunga] er sennilega næststærsti víkingaskáli í veröldinni, 43 metrar að lengd, sem er gríðarlegt mannvirki,“ segir hann.

300 metrar í næsta skála?

Um Böðmóð sjálfan er lítið vitað og skálinn er með öllu órannsakaður. Bjarni hefur staðið í stappi við yfirvöld um að fá að aldursgreina Böðmóðstungu, en verið synjað ítrekað á þeim grundvelli að skálinn sé friðlýstur „Og á Íslandi túlka yfirvöld friðlýsingarhugtakið þannig að þar megi ekkert gera,“ segir hann. Annars staðar í heiminum séu rannsóknir hins vegar yfirleitt grundvöllur friðlýsingarinnar, bætir hann við og nefnir Stonehenge sem dæmi.

Bjarni segir kumlið í landi Ytri-Ása hins vegar hvorki líklegt til að tilheyra Böðmóðstungu né Hrífunesi, þar sem einnig hafa fundist kuml og þar sem örnefnaskrá tilgreinir friðaða skálarúst skammt frá.

Frétt mbl.is: Fundu mannabein skammt frá sverðinu

Frétt mbl.is: Fundu sverð frá tíundu öld

„Mín skoðun er sú að kuml hafi ekki verið meira en 300 metra frá bæjum, þannig að 300 metra frá þessu kumli gæti þá verið skáli sem er óþekktur í dag.“ Það er óneitanlega spennandi tilhugsun.

Bjarni bendir á að þegar áin fletti ofan af hluta landsins hafi hún um leið gefið fornleifafræðingum möguleika á að nokkurs konar flataruppgreftri sem að öllu jöfnu er ekki stundaður á Íslandi. „Við stundum ekki þá tegund fornleifafræði sem stunduð er í Danmörku og í Suður-Svíþjóð. Þar fletta menn ofan af svæðum á stærð við fótboltavöll til að sjá hvað leynist undir, á meðan við einblínum miklu meira á punktana,“ segir Bjarni og segir flataruppgröftinn sýna mun meira.  

Möguleiki á menjum um blótsiði

Við fornleifauppgröft hér á landi finnast oftast stök kuml og sárasjaldan fleiri en tvö, m.a. vegna þeirra aðferða sem hér er beitt. Bjarni telur því mikilvægt að menn nýti vel þann möguleika til að skoða landið sem opnast hafi með ánni, þó að vissulega kunni svo að fara að áin sé búin að taka of mikið.

„Fornleifafræðingar verða að skoða nánasta umhverfi gríðarlega vel,“ segir Bjarni. „Það eru ekki bara kuml sem menn geta fundið við svona aðstæður, heldur líka ýmis vegsummerki um aðrar athafnir sem tengdar eru greftruninni sem slíkri. Fórnarathafnir, eldar sem brunnu og ýmislegt sem við sjáum svo sjaldan við kumlin af því að við gröfum bara kumlin sjálf og ekkert  í kringum þau. Þarna gefst hins vegar möguleiki á að sjá vegsummerki um blótsiði.“

Sverðið sem er frá tíundu öld er núna komið til …
Sverðið sem er frá tíundu öld er núna komið til varðveislu hjá Þjóðminjasafninu. mbl.is/ Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert