Þjóðgarðurinn tekur við rekstrinum

Frá bílastæðinu við gestastofuna á Hakinu. Þjóðgarðurinn rekur gestastofuna og …
Frá bílastæðinu við gestastofuna á Hakinu. Þjóðgarðurinn rekur gestastofuna og hefur nú ákveðið að taka yfir rekstur söluskálans, sem er á öðrum stað, tímabundið til þess að auka þjónustuna við gesti þjóðgarðsins. mbl.is/Ómar

Til stendur að endurinnrétta Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum til þess að auka þjónustu við gesti þjóðgarðsins. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir að núverandi fyrirkomulag, með söluskála og þjónustumiðstöð í sama húsi, sé komið í öngstræti vegna fjölda gesta. Því sé brýnt að endurskipuleggja alla þjónustumiðstöðina, samhæfa og fella saman þjónustu og móttöku gesta og rekstur söluskálans.

Ólafur segir miklar breytingar fyrirhugaðar á Þingvöllum á næstu misserum. Til stendur að byggja þúsund fermetra við gestastofuna á Hakinu þar sem stefnt er að því að setja upp veitingaaðstöðu, veglega sýningu og söluálmu. Þá verður byggður söluskáli á Þingvallavegi austan við Öxará innan fárra ára sem mun leysa núverandi söluskála í þjónustumiðstöðinni af hólmi. Að sögn Ólafs verður þá hægt að nýta þjónustumiðstöðina betur undir þjónustu við tjaldgesti og upplýsingagjöf.

Núverandi rekstraraðili rekið skálann síðan 1986

Núverandi rekstraraðili söluskálans í þjónustumiðstöðinni hefur rekið hann síðan 1986. Henni var nýlega greint frá því að leigusamningur hennar yrði ekki endurnýjaður en Ólafur segir það hafa verið ljóst fyrir nokkrum árum að sá dagur rynni upp. Upphaflega hafi staðið til að segja leigusamningnum upp vegna fyrirhugaðra breytinga fyrir þremur árum í góðri sátt en samningurinn hafi verið endurnýjaður þrisvar til eins árs í senn þar sem fyrirætlanirnar hafi dregist á langinn.

Frá Þingvöllum.
Frá Þingvöllum. mbl.is/Ómar

„Til þess að geta farið í þessar framkvæmdir þurfum við að hafa frjálsar hendur til að ráðstafa innréttingum og fyrirkomulagi á öllu húsinu,“ segir Ólafur. Hann segir söluskálann búa við ótrúlega þröngan kost en þó sé það ótrúlegt hversu góðan mat núverandi rekstraraðili hafi gert sér úr því litla húsnæði sem hann hafi. Rýmið bjóði þó ekki upp á almennilega veitingaaðstöðu sem er m.a. ástæðan fyrir breytingunum.

„Síðan er á það að líta að það hefur mjög oft verið kvartað undan því að þessi aðstaða hefur ekki verið boðin út. Núverandi rekstraraðili hefur setið einn að þessu,“ segir Ólafur. Hann segir þó mikla ánægju vera með núverandi rekstraraðila og ástæðan fyrir því að leigusamningnum hafi verið sagt upp sé eingöngu vegna framtíðaruppbyggingar á Þingvöllum.

Þjóðgarðurinn mun reka söluskálann, a.m.k. fyrst um sinn

Linda Rós Helgadóttir, dóttir núverandi rekstraraðila, segist hneyksluð yfir ákvörðun Þingvallanefndar og þjóðgarðsvarðar um að segja upp samningnum. „Hún hefur verið með þetta síðan árið 1986,“ segir Linda og bætir við að móðir sín hafi orðið sextug í fyrra og því hefði það verið eðlilegt að leyfa henni að halda rekstrinum þar til hún færi á eftirlaun.

mbl.is/Jakob

„Og að ríkið sé að reka sjoppu, eða þjóðgarður fari að reka sjoppu. Þú getur ímyndað þér hvernig sjoppurekstur fyrir eina manneskju er búbót, en fyrir ríkið eða þjóðgarðinn er það ekki,“ segir Linda. Hún segir ákvörðunina þó ekki koma sér beint á óvart en hún hafi vonast eftir annarri niðurstöðu.

Ólafur segir að þjóðgarðurinn ætli að reka veitingasöluna sjálfur fyrst um sinn. „Í fyrsta kasti, á meðan við erum að átta okkur á því hvers konar þjónustu við viljum veita, hvaða vöruúrval, kostnaðarþættir og tekjumöguleikar eru í stöðunni, þá ætlum við að reka þetta sjálf,“ segir hann. „Það er eðlilegt að þjóðgarðurinn á Þingvöllum vilji núna í eitt eða tvö ár standa í rekstri þjónustu og veitinga til að átta sig á þjónustu og vöruúrvali. Eftir það höfum við betra tæki til að bjóða reksturinn út.“

Hann segir reksturinn þar að auki vera svo smávægilegan að það taki því varla að bjóða hann út, en staðan verði önnur þegar nýr söluskáli verður tilbúinn. Þjóðgarðurinn rekur jafnframt gestastofuna á Haka og segir Ólafur spurður út í reksturinn þar að eftir að viðbyggingin verður tilbúin sé eins líklegt að hlutir verði þar boðnir út.

„Það hefur margt breyst á örfáum árum,“ segir Ólafur en ferðamönnum hefur fjölgað um 30 prósent á ári að jafnaði undanfarin ár. „Frá því að einn landvörður sat og rétti bæklinga ókeypis yfir í stóran rekstur. Hlutirnir gerast býsna hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert