Krafa ákæruvaldsins út í hött

Geirmundur flytur ræðu á aðalfundi Sparisjóðsins í Keflavík árið 2009.
Geirmundur flytur ræðu á aðalfundi Sparisjóðsins í Keflavík árið 2009. mbl.is/Víkurfréttir

Verjandi Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, sem ákærður er fyrir umboðssvik, segir rannsókn málsins hafa verið verulega ófullnægjandi. Þá segir hann kröfu ákæruvaldsins um fjögurra ára fangelsisrefsingu „algjörlega út í hött“.

Frétt mbl.is: Krefst fjögurra ára fangelsisvistar

Í málflutningi sínum í Héraðsdómi Reykjaness í dag sagði verjandinn, Grímur Sigurðsson, rannsóknina hafa tekið gríðarlega langan tíma, enda hafi hún varað í að minnsta kosti fjögur til fimm ár.

Þá mótmælti hann því sem fram hefði komið í máli sækjanda, að rannsóknin hefði verið umfangsmikil. Hvorki væri hægt að kalla málið sjálft umfangsmikið né rannsókn þess.

„Þetta er algjörlega ófullnægjandi rannsókn,“ bætti hann við og benti máli sínu til stuðnings á að embætti saksóknara hefði sent tölvupósta á aðila, til dæmis starfsmenn Landsbankans, og þeir beðnir að finna nauðsynleg gögn. „Og ef þeir fundu þau ekki, þá var það bara látið kyrrt liggja.“

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik. mbl.is/Sverrir

Neitaði vegna aldurs og heilsubrests

Líkt og mbl.is hefur áður greint frá neitaði Geirmundur að svara spurningum í réttarhöldunum og vísaði til svara sinna við skýrslutöku lögreglu.

Frétt mbl.is: Baðst undan spurningum fyrir dómi

Grímur sagði Geirmund hafa gert það meðal annars sökum aldurs síns, en hann er 72 ára. Hann hefði ekki treyst sér til þess sökum aldurs síns og heilsubrests. Hins vegar sagði hann Geirmund gera fyrirvara við framburði ýmissa vitna, sem mörg hver hefðu hagsmuna að gæta af því að fjarlægja sig málinu.

Þá taldi verjandinn rétt að geta þess að, hvað sem öðru líði, líti Geirmundur svo á að umræddar ráðstafanir sem ákært er fyrir, hafi verið að öllu leyti innan hans heimilda sem sparisjóðsstjóra. Hann hafi þá aldrei verið bundinn við að bera ákvarðanir sínar undir hina óformlegu lánanefnd sem hann stefndi saman, og mbl.is hefur áður greint frá.

Sparisjóðurinn í Keflavík var stofnaður árið 1907, Rúmri öld síðar …
Sparisjóðurinn í Keflavík var stofnaður árið 1907, Rúmri öld síðar var hann allur. mbl.is/Þórður

Lán án tryggingar ekki einsdæmi

Sagði hann að lánveiting upp á tugi milljóna án tryggingar væri ekki einsdæmi hjá sjóðnum, og nefndi þá meðal annars lán sem veitt hefði verið úr sjóðnum að fjárhæð 99 milljónir, án nokkurrar tryggingar.

Fyrr í dag vísaði sækjandinn í málflutningi sínum til bæði Ímon- og Exeter-málsins, þar sem hún sagði atvik í þeim svipa til máls Geirmundar.

Hafnaði verjandinn þeirri samlíkingu, þar sem aðgerðirnar sem sakfellt var fyrir í þeim málum hefðu átt sér stað í miðju hruni bankanna og jafnvel eftir það, og skoðist því í allt öðru ljósi.

Báðir töldu sparisjóðinn eigandann

Verjandinn ítrekaði það að Geirmundur hefði átt engan þátt í viðskiptum Víkur og Fossvogshyls með stofnfjárbréfin, og enga vitneskju haft um þau umfram það sem stjórn sjóðsins hafi vitað.

Mestu máli sagði hann skipta, að báðir stjórnarmenn Fossvogshyls hefðu á sínum tíma talið að sparisjóðurinn í Keflavík væri eigandi félagsins, en annar þeirra var Sverrir sonur Geirmundar.

Í ljós kom síðar að félagið hafði allan tímann verið í eigu Deloitte, þar til það var framselt Sverri sama dag og í það voru færð stofnfjárbréf í sparisjóðnum, frá dótturfélaginu Víkum.

Stjórnarmenn Fossvogshyls segjast hafa talið sparisjóðinn eiganda félagsins.
Stjórnarmenn Fossvogshyls segjast hafa talið sparisjóðinn eiganda félagsins. mbl.is/Þórður

Ótrúverðugur framburður Páls

Sagði hann einnig að líta verði til ummæla Páls Grétars Steingrímssonar fyrrverandi endurskoðanda sparisjóðsins. Páll Grétar hafi lýst því í símtali að Sverrir hafi aldrei átt hlut í félaginu.

Frétt mbl.is: Vissi ekki ástæðu ummæla sinna

Framburður Páls, sem kom fyrir dóm fyrr í dag, hafi þá verið afar ótrúverðugur og litast af því að hann væri að verja sín störf.

Útilokað sé að Geirmundur hafi vitað betur hver ætti félagið en sjálfir stjórnarmenn þess og endurskoðandinn Páll. Allir reikningar hafi auk þess verið greiddir af sparisjóðnum.

Spurður af dómara, af hverju færsla bréfanna frá Víkum til Fossvogshyls hafi þá yfir höfuð átt sér stað, ef ekki til að koma stofnfjárbréfunum úr samstæðu sparisjóðsins, fyrst talið var að félagið tilheyrði sjóðnum, sagði verjandinn að það væri ekki víst.

Engu að síður hefði Geirmundur ekki átt neina aðkomu að þessum gerningum sem slíkum.

„Þetta voru atriði sem undirmenn ákærða gátu tekið ákvörðun um, og gerðu.“

Sparisjóðurinn rann inn í Landsbankann árið 2011.
Sparisjóðurinn rann inn í Landsbankann árið 2011. mbl.is/Víkurfréttir

Með hagsmuni sjóðsins að leiðarljósi

Því næst sagði verjandinn það alrangt, sem fram hefði komið í máli sækjanda, að ekkert endurgjald hefði fengist fyrir stofnfjárbréfin þegar þau færðust frá Víkum í Fossvogshyl. Ljóst væri að endurgjaldskrafa hefði myndast gagnvart Fossvogshyl og síðar hafi komið þaðan greiðsla upp á rúmlega fimmtíu milljónir til Víkna.

Benti hann á að verðmæti bréfanna hefði verið stórlega ofmetið, enda liggi engin sönnun fyrir um raunverulegt verðmæti þeirra á tíma viðskiptanna, þar sem meðal annars hafi enginn virkur markaður verið með stofnfjárbréf sjóðsins.

Þá sagði hann vitni hafa staðfest að Geirmundi hafi gengið gott eitt til.

„Huglæg afstaða hans var sú að hann reyndi í hvívetna að hafa hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi. Þetta staðfesta öll þau vitni sem að þessu hafa verið spurð,“ sagði verjandinn.

Sparisjóðurinn í Keflavík opnaði útibú í Borgartúni í Reykjavík árið …
Sparisjóðurinn í Keflavík opnaði útibú í Borgartúni í Reykjavík árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrun bankakerfisins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Blikni í samanburði við hrunmálin

Hagsmunirnir hefðu auk þess verið óverulegir, í samanburði við efnahag sparisjóðsins á þessum tíma og sömuleiðis með hliðsjón af svokölluðum hrunmálum. 

„Krafa ákæruvaldsins um fjögurra ára refsingu er algjörlega út í hött,“ bætti hann við.

„Bara í gær gekk dómur í máli Hæstaréttar í stærsta markaðsmisnotkunarmáli Íslandssögunnar, þar sem þyngsti dómurinn var fjögur og hálft ár.“

Frétt mbl.is: Allir sakfelldir í Kaupþingsmáli

Í umræddu máli hafi verið um að ræða tugmilljarða viðskipti og sagði verjandinn mál sparisjóðsins blikna í samanburði.

Rænt hann bestu árum lífs síns

Að lokum sagði hann málið allt hafa valdið Geirmundi ólýsanlegum þjáningum og rænt hann bestu árum lífs síns, að loknum löngum starfsaldri þar sem hann vann aðeins fyrir Sparisjóðinn í Keflavík.

Geirmund glími við veikindi og í læknisvottorði komi fram að refsing geti haft alvarleg áhrif á heilsufar hans.

Dómur verður kveðinn upp í málinu þann 4. nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert