Með halarófu af börnum á eftir sér alla ævi

Guðrún fær nánast daglega heimsókn frá börnum, barnabörnum og langömmubörnum …
Guðrún fær nánast daglega heimsókn frá börnum, barnabörnum og langömmubörnum sem kalla hana úmmu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Á langri ævi hefur Guðrún Helgadóttir látið til sín taka í stjórnmálum á ýmsum sviðum. Hún sat bæði í borgarstjórn og á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið og varð síðar fyrsta konan til að gegna starfi forseta Alþingis. Meðfram vinnu fann hún tíma til að skrifa fjöldann allan af bókum sem glatt hafa íslensk börn í gegnum árin. 

Elst af tíu systkinum

Guðrún er sögumaður af guðs náð og það stendur ekki á henni þegar ég forvitnast um æskuna. Hún er alin upp í Hafnarfirði, fyrsta barn foreldra sinna. „Pabbi var aldrei heima, hann var alltaf úti á sjó og mamma var, eins og ég segi stundum, barnflesta einstæða móðirin sem ég þekki,“ segir Guðrún og hlær. Börnin urðu tíu og eru fædd á tuttugu árum. „Ég er elst af tíu systkinum. Ég hef alltaf verið með halarófu af börnum á eftir mér. Frá því að ég man eftir mér,“ segir Guðrún. Þegar hún eignaðist svo sitt fyrsta barn fannst henni það ekki mikið mál. „Ég get lýst því þannig að þegar ég eignaðist mitt elsta barn þá fannst mér ég vera að eignast tíunda barnið, satt að segja,“ útskýrir Guðrún en hún var auðvitað vön að passa yngri systkinin sín.
„Yngsti bróðir minn varð til þegar ég var í fimmta bekk í menntaskóla og ég var ægilega spæld yfir því, mér fannst þetta bara ekki hægt!“

Guðrún Helgadóttir rithöfundur.
Guðrún Helgadóttir rithöfundur. Ómar Óskarsson

Var bara komið nóg?
„Já, guð minn góður, að eiga ólétta mömmu og vera komin í menntaskóla, mér fannst þetta hryllilegt,“ segir hún. „En hann er sætastur og skemmtilegastur af okkur öllum.“

Fátækt vond fyrir sálina

Guðrún man vel eftir tíðarandanum sem ríkti þegar hún var að alast upp. „Ég er fædd þarna rétt áður en seinna stríð skellur á og þetta voru mjög merkilegir tímar og allt að breytast. Frá því að fólk hafði aldrei séð peninga í að fólk óð í peningum. Allir að vinna fyrir Bretann. Þetta voru miklir byltingartímar satt að segja,“ segir Guðrún. Stóra fjölskyldan í Hafnarfirði óð ekki í peningum en Guðrún segir að þau hafi alltaf átt fyrir mat og haft það betra en margur annar.

„Sannleikurinn var nú sá að sjómenn voru að sumu leyti betur staddir heldur en t.d. verkamennirnir. Pabbi var aldrei atvinnulaus, það þekkti ég aldrei. Hann var alltaf á sama togaranum alla tíð. Við vorum ekki svöng og hann var duglegur að kaupa föt á okkur þegar hann var að sigla. En auðvitað vorum við hundfátæk og þetta var ekkert spennandi líf, það væri synd að segja það. Ég fann mjög fyrir því og hafði snemma mjög ákveðnar væntingar um að ég ætlaði að lifa skemmtilegra lífi,“ segir Guðrún. „Það sem ég er sannfærð um og hafði áhyggjur af mjög snemma er að fátækt gerir fólk ekki bara efnislega fátækt heldur andlega líka. Fólk gefst upp fyrir fátæktinni. Það orkar ekki einu sinni að kveikja á kerti. Það leggst einhver óskaplegur doði yfir fólk,“ segir Guðrún. 

Myndin er tekin við þingsetningu Alþingis árið 1983. Guðrún er …
Myndin er tekin við þingsetningu Alþingis árið 1983. Guðrún er hér fremst á mynd.

Draumur um heimsfrægð

Guðrún segir að hún hafi snemma ákveðið hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. „Það fór ekkert á milli mála að ég ætlaði að verða heimsfræg kvikmyndaleikkona. Því ég las í blöðunum að þær væru svo ægilega ríkar og þá ætlaði ég að vera svo góð og gefa peninga út og suður öllu fátæka fólkinu í Hafnarfirði. Mikið lifandi skelfing var ég nú ákveðin í þessu. Beið dag hvern eftir að verða uppgötvuð. En svo fór það nú þannig að ég var aldrei uppgötvuð,“ segir hún og hlær en hún lék í skólaleikritum í Hafnarfirði og síðar í menntaskóla. 

Hvað kom í veg fyrir að þú yrðir leikkona? 

„Sko, það kom smá babb í bátinn. Þær voru allar þessar stjörnur, Betty Grable og Audrey Hepburn og þessar skvísur svo asskoti hávaxnar. Og það ætlaði bara ekkert að tosast úr henni Rúnu litlu. Og ég tók þá ákvörðun að þetta myndi aldrei ganga, ég væri bara of lágvaxin. Ég ætlaði ekkert að vera einhver lágvaxin gamanleikkona, ég ætlaði að verða alvöru dramatísk leikkona. Þannig fór um sjóferð þá,“ segir Guðrún og brosir að minningunni. 

Kommúnisti í næsta húsi

Eftir menntaskóla tóku við barneignir og starfaði Guðrún lengi á skrifstofu Menntaskólans í Reykjavík, þar sem hún hafði áður numið fræðin. Seinna leiddist hún út í pólitík en hafði frá unga aldri samkennd með fólki og sterka réttlætiskennd.

Var pólitík rædd á þínu æskuheimili?

„Það voru ósköp hreinar línur í því. Mamma og pabbi og afi og amma voru sjálfstæðisfólk, Sigrún besta vinkona mín í næsta húsi og hennar fólk voru Alþýðuflokksmenn og svo var bara einn kommúnisti í næsta húsi en það var Jón Vídalín, frændi minn,“ segir Guðrún en sá maður
skírði son sinn Karl Marx.

Guðrún var á barnsaldri send á skrifstofu Einars Þorgilssonar að sækja laun föður síns. „En oft var lítið eftir af þeim því útgerðin rak verslun á neðri hæðinni og þar var mamma í reikningi,“ útskýrir Guðrún.

„Mér fannst þetta alltaf hið mesta óréttlæti að þessir karlar sem sátu fyrir innan borðið og dýfðu aldrei hendi í kalt vatn, á meðan ég þrælaði úti á reit að breiða út saltfisk og pabbi alltaf úti á sjó, að við ættum aldrei grænan eyri. Versta óréttlæti,“ segir Guðrún.
Eftir menntaskóla fór hún að „blanda sér í ameríska sjónvarpið“ sem hún segist hafa haft miklar áhyggjur af. „Að við myndum bara týna þjóðmenningunni í Keflavík. Við fórum í mótmælagöngur til Keflavíkur,“ segir hún og var þá flokksbundin í Alþýðubandalaginu.
„Þau plötuðu mig svo að fara í borgarstjórn og þaðan inn á þing og þannig gerðist þetta allt einhvern veginn. Ég var nú svolítið stjórnsöm og sumir myndu kannski segja að ég hafi verið frek. En það verður nú stundum að hafa stjórn á hlutunum. Þegar ég fór út í pólitík sagði Viðar bróðir minn: Alltaf vissi ég það að þegar við systkinin færum að heiman og Rúna systir þyrfti ekki að vera að ráðskast með okkur þá myndi hún fara að fara að ráðskast með alla
þjóðina,“ segir hún og hlær.

Viðtalið í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert