Beinin af kraftalegum manni á fertugsaldri

Lærleggurinn sem fannst í landi Ytri-Ása er af kraftalegum karlmanni …
Lærleggurinn sem fannst í landi Ytri-Ása er af kraftalegum karlmanni á fertugsaldri. Facebook-síða Sævar Guðjónssonar

Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, segir mannabeinin sem fundust í kumli í landi Ytri-Ása vera af karlmanni á fertugsaldri. Hildur, sem sérhæfir sig í mannabeinum, hefur nú lokið við að þurrka beinin sem fundust í kumlinu til að unnt sé að skoða þau nánar.

„Ég er þarna með einn fótlegg þannig að beinin segja okkur ekki meira en leggurinn getur sagt,“ segir hún. Þar sem mjaðmaspaði hafi verið á fótleggnum geti hún þó staðfest að beinin séu af karlmanni. „Hann hefur líklega verið á fertugsaldri þegar hann lést og nokkuð stór og mikill.“

Hildur segir manninn líklega hafa verið í kringum 172 cm á hæð. Hún kveðst þó hafa skekkjumörkin nokkuð hressileg þar sem hún hafi bara eitt bein til að áætla hæðina út frá. „Meðallíkamshæð karla á þessum tíma var í kringum 168 cm, þannig að hann hefur líklega verið yfir meðallagi í hæð.“

Vann líkamlega vinnu

Beinþéttnin hafi þá verið mikil, þannig að maðurinn hafi ekki verið veikur. Hann hafi þá líklega þurft að beita líkamanum vel og því væntanlega unnið líkamlega vinnu af einhverju tagi.

„Ef fólk er veikt í langan tíma áður en það deyr þá hrörna beinin eins og aðrir vefir og þarna er ekkert sem bendir til langvarandi veikinda. Þó má sjá merki um að hann einhvern tímann verið með einhverja sýkingu, en hún var löngu gróin.“

Hildur segir engin áform uppi um að skoða beinin frekar að sinni og eru þau nú komin í varðveislu Þjóðminjasafnsins. Hún segir að vissulega væri hægt að aldursgreina þau með C-14 kolefnisgreiningu, en slík greining myndi væntanlega bæta litlu við það sem þegar er vitað.

„Við erum með spjótið og hnífinn sem fundust í tengslum við þetta kuml og þegar maður er með svona greinanlegt haugfé þá er takmarkað sem C-14 greiningin myndi bæta við.“

Ekki í fyrsta skipti sem kumlinu var raskað

Ekki sé hins vegar hægt að staðfesta hvort sverðið, sem fannst nokkrum vikum áður í nágrenninu, hafi komið úr sama kumli og spjótið og hnífurinn. „Það finnst töluvert langt frá og það er ekki hægt að útiloka að þarna hafi verið kumlateigur sem hefur farið,“ útskýrir hún og telur ólíklegt að fleiri bein eigi eftir að finnast úr kumlinu.

Landslagið á svæðinu hafi áður breyst, líklega vegna vatns, og þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem þessu kumli var raskað. „Stærsti hlutinn af þessu kumli sem við rannsökuðum þarna hefur trúlega farið í einhverju hlaupi einhvern tímann fyrir löngu. Þannig að mér finnst líklegt að ástæðan fyrir því að við erum þarna bara með einn fótlegg sé sú að það sé það eina sem var eftir.“

Fornleifafræðingurinn Hildur Gestsdóttir hefur sérhæft sig í rannsóknum á mannabeinum.
Fornleifafræðingurinn Hildur Gestsdóttir hefur sérhæft sig í rannsóknum á mannabeinum. mbl.is/ Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert