Segist hafa endurgreitt 10 milljónir

Björn Steinbekk segist hafa endurgreitt 10 milljónir.
Björn Steinbekk segist hafa endurgreitt 10 milljónir. Mynd/Björn Steinbekk

Björn Steinbekk segist hafa endurgreitt um 10 milljónir króna til þeirra sem fóru fram á að fá endurgreidda miða sem hann seldi þeim fyrir leik Íslands og Frakklands á EM í fótbolta í sumar.

Hann á enn eftir að endurgreiða um sex milljónir króna, samkvæmt viðtali við Morgunútvarp Rásar 2.

Kristján Atli Baldursson, eigandi Netmidi.is, greindi frá því í samtali við mbl.is í gær að Björn ætti eftir að greiða honum 5,2 milljónir króna vegna miðasöluklúðursins. Sagði hann að málið muni fara fyrir dómstóla. 

Frétt mbl.is: Bíður enn eftir milljónum frá Birni

Í viðtali við mbl.is í júlí sagðist Björn hafa verið svikinn af miðasöluaðilunum sem hann keypti miða af á leikinn. Þegar til Parísar var komið hafi hann því keypt 458 miða af öðrum aðilum en fengið hluta af þeim seint. Honum tókst þó að afhenda 389 miða fyrir utan leikvanginn. Hann nefndi einnig að bakpoka með rúmlega 60 miðum hefði verið rænt. Á endanum hefðu 69 manns ekki fengið miða. Hann þvertók fyrir að um svindl hafi verið að ræða af sinni hálfu. 

Frétt mbl.is: Hefði ekki fórnað öllu með svindli

Í viðtalinu við RÚV greindi Björn frá því að hann þurfi að endurgreiða 335 miða til fólks sem hefur farið fram á endurgreiðslu. Hann sé að vinna að því hörðum höndum og segist hafa lagt áherslu á að endurgreiða fyrst þeim sem keyptu miða beint af honum, þ.e. einstaklingum og minni hópum sem ætluðu ekki að hagnast á miðakaupunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert