Nýr dómari í Glitnismáli

Tveir hinna ákærðu munu verja sig sjálfir í málinu.
Tveir hinna ákærðu munu verja sig sjálfir í málinu. Friðrik Tryggvason

Nýr dómari hefur tekið við sem dómsformaður í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, en það er Sigríður Hjaltested héraðsdómari. Áður hafði Arngrímur Ísberg verið settur sem dómari í málinu og setið þingfestingu og nokkrar fyrirtökur. Fram kom í fyrirtöku málsins í dag að Sigríður hefði tekið við málinu vegna fjarveru Arngríms og myndi væntanlega halda málinu áfram.

Þetta er ekki eina breytingin sem hefur orðið á mannskap í tengslum við dómsmálið, en í fyrirtöku í maí varð ljóst að tveir hinna fimm ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis myndu verja sig sjálfir í málinu þótt þeir séu báðir ófaglærðir í lögfræði. Þetta eru þeir Jónas Guðmundsson og Valgarð Már Valgarðsson, en báðir voru þeir starfsmenn eigin viðskipta bankans.

Aðalmeðferð ekki á þessu ári

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, og Pétur Jónasson sem vann í deild eigin viðskipta eru allir áfram með sína verjendur.

Sagði Sigríður strax að ljóst væri að ekki yrði að aðalmeðferð málsins á þessu ári, en greinargerðum hefur enn ekki verið skilað. Ekki var heldur ákveðin sérstök dagsetning fyrir það í dag, en verjendur í málinu fóru fram á úrskurð um kröfu þeirra til að fá aðgang að gögnum sem þeir telja tengjast málinu en saksóknari hefur hafnað. Verður líklega úrskurðað um þessa kröfu í næstu viku.

Tekist á um aðgang að gögnum

Verjendur þremenninganna sögðu að með hliðsjón af jafnræði sækjenda og ákærðu í málinu væri óskiljanlegt að ekki fengist aðgangur að öllum gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn málsins. Áður hafa komið upp sambærileg atriði í öðrum dómsmálum tengdum hruninu og var þá slíkum beiðnum ákærðu hafnað að mestu. Vísaði saksóknari í þrjá Hæstaréttardóma því til stuðnings. Aftur á móti veitti héraðsdómur verjendum í svokölluðu Chesterfield-máli (CLN-máli) aðgang að takmörkuðum gögnum og sögðu verjendur í því máli í framhaldinu að þau gögn hafi skipt miklu máli upp á sýknu ákærðu í því máli.

Verjandi Lárusar sagði að væntanlega yrði lögð fram greinargerð í málinu en það væri þó ekki ákveðið. Sama sinnis var lögmaður Péturs, en lögmaður Jóhannesar sagði ólíklegt að slíkt yrði gert.

Gætu leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA

Þá lét Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, vita af því að verjendur í málinu væru að skoða að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins varðandi samræmi landsréttar hér á landi og EFTA-dómstólsins vegna nýlegs dóms Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Staðfestir Óttar við mbl.is að þar sé sérstaklega horft til þeirrar gagnályktunar sem Hæstiréttur gerði í tengslum við lögmæti óformlegrar viðskiptavaktar. Hæstiréttur sagði slík viðskipti ólögleg með gagnályktun frá lagagrein um fjármálafyrirtæki þar sem tilgreint er hvers konar viðskipti með eigin bréf eru lögleg. Kom þetta bæði fram í dómum Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmálum Landsbankans og Kaupþings.

Frá þingfestingu málsins fyrr á árinu.
Frá þingfestingu málsins fyrr á árinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert