Gleymdist að læsa hnífaskúffunni

Ákærði var leiddur inn í lögreglubíl á vettvangi í október …
Ákærði var leiddur inn í lögreglubíl á vettvangi í október á síðasta ári. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ekkert eftirlit var haft með lyfjagjöf mannsins, sem ákærður er fyrir að hafa myrt karlmann á sextugsaldri í búsetukjarna fyrir geðfatlaða við Miklubraut þann 22. október í fyrra. Þetta kom fram í skýrslutökum í aðalmeðferð málsins í vikunni, að því er segir í Fréttablaðinu.

Fram hafi komið við aðalmeðferð að fundist hefði mikið magn þeirra lyfja, sem maðurinn hefði átt að taka, í herbergi hans, og að gleymst hefði að læsa hnífaskúffu þeirri sem geymdi morðvopnið. Myndir í dómskjólum hafi auk þess greinilega sýnt að neysla fíkniefna hafi átt sér stað innan veggja búsetukjarnans.

„Þetta er auðvitað heimili fólks en ekki heilbrigðisstofnun. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Í einhverjum tilvikum er verið að fylgjast með því hvernig fólk tekur lyfin sín en það er alfarið undir stjórn eða áætlun sem heilbrigðisstofnun eða læknir setur fram,“ er haft eftir Stefáni Eiríkssyni, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Skaðabóta krafist af ákærða

Maðurinn, sem er 39 ára, er ákærður fyr­ir að hafa stungið mann á sex­tugs­aldri 47 sinn­um með hnífi, eins og mbl.is hefur áður greint frá.

Mann­drápið átti sér stað að kvöldi fimmtu­dags­ins 22. októ­ber í fyrra, en báðir menn­irn­ir bjuggu í hús­inu. Í ákær­unni kem­ur fram að hníf­ur­inn hafi meðal ann­ars gengið inn í hjarta og lif­ur manns­ins sem hlaut bana af.

Auk refs­ing­ar vegna mann­dráps­ins ger­ir rík­is­sak­sókn­ari kröfu um að maður­inn sæti ör­ygg­is­gæslu á viðeig­andi stofn­un. Einka­rétt­ar­krafa er einnig uppi í mál­inu og hljóðar upp á þrjár millj­ón­ir króna í skaðabæt­ur.

Dómur verður kveðinn upp í byrjun nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert