Vilja finna heimili fyrir fleiri ketti

Enn eru um þrjátíu kettir í húsinu og vilja Villkettir …
Enn eru um þrjátíu kettir í húsinu og vilja Villkettir gjarnan finna heimili fyrir fleiri þeirra. Ljósmynd/Villikettir

Tæplega 30 kettir eru enn á hundrað-katta-heimilinu svonefnda á Suðurnesjum, sem fjallað var um í fjölmiðlum í sumar. Félagið Villikett­ir hefur tekið við um það bil 80 kött­um af heim­il­inu undanfarna mánuði og auk þess fæddust 17 kettlingar eftir að kettirnir voru komnir í fóstur. Búið er að finna heimili fyrir alla þá ketti sem Villikettir tóku við, fyrir utan fimm læður sem voru komnar að því að gjóta þegar þær voru teknar af heimilinu.

„Það er oft erfiðara að koma eldri köttum út, en þeir hafa þó líka verið að eignast heimili einn á eftir öðrum,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir hjá Villiköttum, félagi sem var stofnað til að sinna vel­ferð villikatta. „Sem betur fer eru margir líka til í að taka eldri kött, því litla kettlingskrúttið á einnig eftir að eldast,“ segir hún og er bjartsýn á að réttu heimilin eigi eftir að finnast fyrir læðurnar fimm. „Þær eru alveg nógu gæfar til að vera heimiliskettir.“

Búið að gelda alla kettina

Arndís Björg segir Villiketti hafa látið gelda alla kettina af heimilinu án aðkomu MAST, sem hafi svarað fyrirspurnum félagsins seint og illa. Félagið hafði farið þess á leit við MAST að stofnunin greiddi Villiköttum upphæð sem svaraði til förgunarkostnaðar þeirra katta af heimilinu sem MAST myndi annars láta aflífa, en þá upphæð ætluðu Villikettir að láta ganga upp í kostnað við geldingu og annan lækniskostnað.

„Við gáfumst upp á MAST, þeir tóku ekki þátt í neinu,“ segir hún og kveður Villiketti hafa staðið straum af öllum aðgerðum með fjárframlögum frá almenningi. „Fólk var duglegt að leggja inn á okkur og allar upphæðir, líka 500 króna innleggin, skipta máli, því það safnast þegar saman kemur og á tímabili áttum við fyrir öllum sjúkrakostnaði.“

Mikill læknis- og geldingakostnaður lagðist þó á félagið. Enda fylgdi mikill kostnaður lyfja- og sjúkravist, þó að dýralæknar hafi verið viljugir að gefa sína vinnu, þar sem ástand sumra dýranna var mjög slæmt þegar þau voru tekin af heimilinu. Margir kattanna þjáðust af ofþornun, vannæringu og voru með niðurgang, lungnabólgu og ýmsar sýkingar þegar Villikettir gripu inn í.

Kötturinn Rökkvi, sem kom af hundað-katta-heimilinu, var orðin algjör kelirófa …
Kötturinn Rökkvi, sem kom af hundað-katta-heimilinu, var orðin algjör kelirófa þegar þurfti að aflífa hann vegna nýrnabilunar. Ljósmynd/Villikettir

Heilsufar kattanna batnað mikið

Heilsufar kattanna hefur batnað mikið nú í sumar og segir Arndís Björg aðeins þrjá ketti hafa verið svo veika að það hafi þurft aflífa þá. „Við urðum að láta hann Rökkva fara um síðustu helgi, en nýrun í honum voru alveg hætt að starfa vegna sýkingar. Hann var einn þeirra katta sem við héldum að væri alveg villtur þegar hann kom til okkar, en var síðan orðinn algjör kelirófa.“ Hún segir sýkingar oft verða villiköttum að aldurtila ­­- þeir fái sýkingar sem þeir ráða einfaldlega ekki við. 

Enn eru tæplega 30 kettir á heimilinu á Suðurnesjum að sögn Arndísar Bjargar, sem segir Villiketti ekki hafa getað tekið við þeim öllum í sumar. „Þeir eru þó allir geldir og búnir að fara í gegnum læknisskoðun,“ segir hún, en auðvitað langar okkur að fara og fækka köttunum á heimilinu enn frekar því 30 kettir eru vissulega of margir.“

Hún segir félaga í Villiköttum fara reglulega í heimsókn á heimilið með matargjafir fyrir dýrin, auk þess sem fylgst er með velferð þeirra. „ Við höfum fengið matargjafir frá almenningi, sem við höfum farið með til eiganda kattanna og erum núna einmitt að safna vistum upp í næstu ferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert