Hefur stöðu sakbornings í LÖKE-máli

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Engin skýrslutaka hefur enn farið fram yfir Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðingi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en reynt verður að hraða öllu rannsóknarferlinu í samræmi við jafnræðisreglu laga um að ljúka skuli málum svo hratt sem auðið er. Hefur Alda stöðu sakbornings í málinu. Þetta segir Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í LÖKE-málinu, en tveir sakborningar í því máli sökuðu Öldu um að hafa misbeitt lögregluvaldi sínu við rannsókn málsins.

Bæði embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara lýstu sig vanhæf til að fjalla um málið og var Bogi Níelsson settur ríkissaksóknari af innanríkisráðuneytinu. Hann fékk svo Lúðvík til að vera settan héraðssaksóknara í málinu, en Lúðvík er fyrrverandi alþingismaður og núverandi lögmaður á lögfræðistofunni Bonafide lögmenn. Mun Lúðvík stýra og bera ábyrgð á rannsókn málsins.

Hefur stöðu sakbornings

Lúðvík segir Öldu hafa stöðu sakbornings í málinu en að hann muni ekki frekar tjá sig efnislega um á hverju málið sé byggt eða hvernig framvinda málsins sé.

Í gær sendi lögreglan frá sér yfirlýsingu um að settur héraðssaksóknari hefði hafið rannsókn á ásökunum á hendur starfsmanni lögreglunnar vegna þess að honum hafi verið gefið að sök að hafa misbeitt lögregluvaldi sínu við rannsókn máls.

Í kjölfarið sendi Alda frá sér yfirlýsingu þar sem hún vísaði ásökunum á bug. Sagði hún að rannsóknin á sínum tíma á meintum brotum lögreglumannanna í LÖKE-málinu hafi verið á forræði ríkissaksóknara og óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem Alda starfaði. „Ég kom ein­göngu að um­ræddu máli sem lög­lærður full­trúi. Rann­sókn máls­ins leiddi til þess að embætti rík­is­sak­sókn­ara höfðaði saka­mál á hend­ur lög­reglu­mann­in­um sem lauk með því að Hæstirétt­ur Íslands sak­felldi hann fyr­ir brot í starfi,“ sagði Alda í yfirlýsingunni.

Rannsakaði upphaflega mál þriggja manna

Einn mannanna sem um ræðir heitir Gunn­ar Scheving Thor­steins­son. Hann var sakfelldur í Hæstarétti fyrir að hafa greint vini sínum frá því á Facebook að hann hafi verið skallaður af ungum dreng við skyldustörf. Var honum þó ekki gerð refsing vegna málsins. Áður hafði hann verið ákærður fyrir uppflettingar í innra kerfi lögreglunnar, svokölluðu LÖKE-kerfi, á árunum 2007-2013, en ríkissaksóknari féll frá þeirri ákæru. Höfðu upphaflega tveir aðrir vinir hans verið ákærðir vegna málsins, en talið var að Gunnar hefði flett upp upplýsingum um konur í LÖKE-kerfinu og deilt á lokuðum Facebook-hópi með starfsmanni símafyrirtækis og lögmanni. Fallið var frá málinu á hendur tvímenningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert